146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil á þessum þingdegi ræða um verkfall sjómanna. Það hefur staðið í margar vikur, ég er ekki með það á hreinu hvað þær eru margar, en allt of lengi hafa sjómenn og bátar þeirra verið bundnir við bryggju. Fólkið á landsbyggðinni sem treystir á sjávarútveginn situr heima atvinnulaust og er á bótum. Fiskmarkaðir, innan lands og utan, eru í stórhættu. Ég trúi því að úr þessu húsi fylgi sterkar kveðjur til sjómanna og útgerðarmanna um að hraða því sem mest má að semja, klára samninga sem er auðvitað löngu tímabært. Þeir hafa verið lausir í fimm ár.

Á sama tíma fáum við líka þær ömurlegu fréttir að útgefinn loðnuafli sé aðeins 57 þús. tonn. Það segir okkur hver staðan er í loðnunni. Loðnan er ekki aðeins mikilvægur nytjafiskur, hún hefur farið frá því að vera ekki veidd fyrir ekki svo mörgum áratugum, svo var hún eingöngu brædd, síðan var hún fryst og síðan voru hrognin fryst og loðnan varð að mestu verðmætum íslensks sjávarfangs. Nú er kvótinn svipur hjá sjón og ef ég man rétt held ég að veiðarnar á síðasta veiðiári hafi verið 110 þús. tonn af loðnu eða þar um bil. En við munum að það eru ekkert mjög mörg ár síðan veiðarnar fóru upp í u.þ.b. 1 millj. tonn á ári. Það er auðvitað ekki í hendi en ég hef miklar áhyggjur af því hvernig staðan í sjávarútveginum er. Ég vona að sjómenn og útgerðarmenn semji og að atvinnulífið fari á blússferð í upphafi vertíðar.


Efnisorð er vísa í ræðuna