146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í umræðum á þingi í gær tjáði hv. þm. Brynjar Níelsson að hann teldi skýrsluna um umfang aflandsfélagaviðskipta Íslendinga, sem forsætisráðherra tafði að birta fram yfir kosningar og áramót, ekki vera fullbúna. Í ljósi þess að skýrslan átti að vera tilbúin í lok sumars er frekar augljóst að skýrslan átti einungis að vera umfjöllun í grófum dráttum, samansafn þeirra upplýsinga sem var hægt að fá með lítilli fyrirhöfn. Starfshópurinn sem vann skýrsluna taldi hana greinilega vera tilbúna, annars hefði hann væntanlega ekki skilað skýrslunni. Þá má minnast á að forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði að efni skýrslunnar væri grunnur að málefnalegri umfjöllun um aflandsfélagaviðskipti þannig að hann taldi greinilega efnið eiga erindi við almenning. Vissulega benti hópurinn á að skoða þyrfti ýmislegt betur. Það eru bara eðlileg vinnubrögð að benda á hvað þarf að gera í framhaldi af því sem maður klárar.

Spurningin sem skiptir hins vegar máli er hvort upplýsingarnar varða almannahag. Það telur umboðsmaður Alþingis í áliti sínu á málinu ekki vera umdeilanlegt. Mig langar því að inna hv. þm. Brynjar Níelsson eftir þeirri skoðun að skýrslan sé ekki fullbúin, sem er augljóslega rangt miðað við uppsetningu skýrslunnar og álit umboðsmanns Alþingis, og hvort ekki væri vert að hafa sérstaka umræðu um töf útgáfu á skýrslunni með tilliti til siðareglna ráðherra, fá bara allt upp á borðið í þeirri umræðu þannig að hægt sé að taka þessa umræðu á réttum grundvelli fyrir áframhaldandi störf hér á þingi.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna