146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Sjósókn, útgerð og fiskvinnsla hefur frá aldaöðli verið meginstoð atvinnu á Vestfjörðum. Sjávarútvegur er lykilgrein og er sú stoð sem atvinna og hagkerfi svæðisins hefur enn á að byggja. Þróun atvinnulífsins undanfarin ár hefur hins vegar einkennst af samdrætti og fólksfækkun er viðvarandi. Vestfirðingar hafa í mörg ár leitað nýrra tækifæra og hefur að ýmsu leyti orðið ágengt. Þar, eins og annars staðar á landinu, er þjónusta við ferðamenn vaxandi en Vestfirðingar horfa til gullkistu sinnar, sjávarins.

Fyrir nokkrum árum gaf Umhverfisstofnun út rekstrar- og starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í Arnarfirði. Nú er svo komið að allt að 40 tonn af laxi eru flutt á erlendan markað á degi hverjum, þrír trukkar. Framleiðslan í ár verður um 10.000 tonn og söluverðmæti 9 milljarðar. Mannlíf og atvinna hefur tekið mikinn fjörkipp og íbúum fjölgar á svæðinu og skortur er á íbúðarhúsnæði. Á norðanverðum Vestfjörðum horfa menn til sömu atvinnugreinar. Fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskeldi á Ísafirði og í Bolungarvík hafa sótt um leyfi til sjókvíaeldis á skilgreindum svæðum í Ísafjarðardjúpi.

Ekki ríkir full sátt um þau umsvif í sjó við Íslandsstrendur. Hagsmunaaðilar takast á og stangveiðimenn og talsmenn verndunar á villtum stofnum telja að yfirvofandi sé óafturkræf vá. Sýn íbúanna er á þann veg að þessi nýja grein geti aftur á móti skotið traustum stoðum undir afkomu og viðkomu Vestfirðinga til framtíðar ásamt með hefðbundnum sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Heimamenn sem vinna að uppbyggingu þessarar atvinnugreinar á Vestfjörðum kalla eftir skýrum ferlum, eftirliti og umgjörð í ljósi tortryggni og andstöðu. Væntanlegt er í þingið lagafrumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um skipulag haf- og strandsvæða sem sett er vegna þeirrar aukningar sem orðið hefur í starfsemi á haf- og strandsvæðum og vaxandi eftirspurnar eftir athafnasvæðum, m.a. vegna fiskeldis. Þetta er mikilvægt hagsmunamál sem ég hvet þingmenn og landsmenn alla til að kynna sér vel.


Efnisorð er vísa í ræðuna