146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Í mars á síðasta ári samþykkti Alþingi lög nr. 20/2016, um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Í þessum lögum er gert ráð fyrir því, þ.e. þar er vísað í bráðabirgðaákvæði, að unnin skuli áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum um land allt til verndar náttúru og menningarminjum. Þar á þessi áætlun m.a. að taka sérstaklega til ársins 2017 sem við erum öll meðvituð um að er hafið. Enn sem komið er liggja bara fyrir drög um forgangsverkefni í ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála varðandi þessi mál. Þegar við tölum um uppbyggingu innviða er okkur tamt að horfa mikið til sérstakra framkvæmda, svo sem göngustíga, palla eða einhvers sem stýrir sérstaklega ágangi ferðamanna sem til landsins koma, en minna fer fyrir þætti landvarða í þessu samhengi. Með leyfi forseta segir í drögum að áætluninni:

„Aukning landvörslu og umsjónar er mikilvæg í ljósi þess hversu innviðauppbyggingu er víða ábótavant og þeirri staðreynd að langan tíma mun taka að byggja hana upp.“

Það sem mig langaði að vekja athygli á, og held að skipti máli að komi fram, er að víða eru þessar kostnaðarsömu framkvæmdir tímafrekar eins og við höfum margoft heyrt rætt í fjölmiðlum. Á ári hverju klára um 30 landverðir námskeið í landvörslu og eru vel í stakk búnir til þess að standa vaktina á þessum svæðum og tryggja a.m.k. viðganginn eða viðhaldið, að við getum staðið vaktina og gætt þess á þessum sama tíma — ég segi „við“ vegna þess að ég hef starfað sem slíkur — án þess að þurfa að kosta mikla uppbyggingu af því að hún tekur tíma. Ég held að það sé brýnt að leggja áherslu á að stórauka landvörslu eins og hefur verið talað um með tilliti til þessa á meðan við getum ekki byggt eins hratt upp og við hefðum viljað.


Efnisorð er vísa í ræðuna