146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar, í ljósi þess að það eru margir nýir þingmenn á þessu nýja þingi, að minna á og hvetja nýja þingmenn til þess að lesa þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá því á árinu 2010. Þá samþykktu allir þingmenn þessa ályktun. Ástæða þess að ég minni á hana er að það hefur verið mikið rætt um nefndaskipan á Alþingi núna. Það er ekki úr lausu lofti gripið að ákveðið var að breyta þingsköpum eða hefðum og venjum á þingi á þann veg að hér væri stofnuð stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það var gert í kjölfar bankahrunsins og í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þá var lagt til, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var orðin til, að formennsku í henni yrði varpað til stjórnarandstöðu því að hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þetta var jafnframt gert til þess að skapa möguleika fyrir Alþingi að hafa meira sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. En þá ákvað Sjálfstæðisflokkurinn að þiggja ekki formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga.

Á síðasta kjörtímabili ákvað stjórnarandstaðan að taka við þessari ábyrgð. En nú er það svo, vegna einhverra stórfurðulegra vinnubragða hjá Sjálfstæðisflokknum, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd heyrir ekki lengur undir þann anda sem lögin og ályktunin var smíðuð um, að hér væri alvörueftirlit með framkvæmdarvaldinu undir ábyrgð stjórnarandstöðunnar. Það er miður og mjög leitt. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn sjái sóma sinn í því (Forseti hringir.) að læra af mistökum fortíðarinnar og koma sér út úr svona vinnubrögðum.


Efnisorð er vísa í ræðuna