146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að taka undir orð hv. þm. Birgittu Jónsdóttur varðandi mikilvægi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég held að þingmenn hér inni, bæði nýir og gamlir, og þá meina ég eldri í starfi, ættu að glugga oftar í hana. Handbók nýrra þingmanna ætti kannski að vera rannsóknarskýrslan, kannski ekki síst það bindi sem fjallar um úrbætur í stjórnsýslunni.

Þá langar mig að höggva í sama knérunn og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson. Ég virðist vera hér til að taka undir með öðrum þingmönnum. Það sýnir samstöðuna á þingi, hvað við erum öll miklir og góðir vinir. En mig langar að koma inn á málefni fiskeldis sem ég held að við þurfum að skoða mjög vel. Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á mikilvægi atvinnugreinarinnar á ákveðnum landsvæðum, sem er allt satt og rétt. Þess þá heldur þarf að skoða það mál sérstaklega vel. Allt of oft höfum við horft fram á það á Íslandi, því miður, að fjárhagslegir hagsmunir hafa kannski ýtt um of á að gripið sé til ákveðinna aðgerða. Við höfum stigið óvarlegar til jarðar en við ættum að gera.

Þetta er mál sem þarf að skoða mjög í grunninn. Margir erfðafræðingar, líffræðingar og fiskifræðingar hafa veifað rauðum flöggum þegar kemur að þessu. Við hljótum alltaf að stíga þannig til jarðar að náttúran njóti vafans í svona málum. Við ættum að horfa til annarra landa sem hafa reynslu í þessu, eins og Noregs. Hv. 6. þm. Reykv. s., ég, háttvirtur ég, lagði það til í gær á fundi umhverfis- og samgöngunefndar að nefndin tæki frumkvæði í því að skoða þessi mál. Ég skynjaði ekki annað en að það væri vilji til þess hjá öðrum nefndarmönnum og ég vona að það verði til þess (Forseti hringir.) að þetta verði að þingmáli því það er mikilvægt að þessi mál komi inn á borð umhverfis- og samgöngunefndar og að umhverfismálin verði þar metin eins og hægt er.


Efnisorð er vísa í ræðuna