146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar varðandi áhyggjur af sjómannaverkfallinu og afleiðingum þess. Staðan er mjög erfið, virðist vera. Ég hef auðvitað ekki hug á því að leggja það til að Alþingi hafi nein afskipti af málinu sem slíku. En ég tel að við getum lagt fram mál, sem ég ásamt Ásmundi Friðrikssyni og vonandi þingmenn úr öllum flokkum getum verið flutningsmenn að, um að fæðispeningar sjómanna verði skattfrjálsir. Fyrirmyndin er til staðar varðandi opinbera starfsmenn og dagpeninga sem þeir fá sem vinna fjarri heimilum sínum og þurfa ekki að greiða skatta af þeim. Ég tel að þetta sé réttlætismál sem gæti með jákvæðum formerkjum liðkað til fyrir þessari deilu. Ég held að það sé eitthvað sem við gætum sameinast um.

Málið snýst ekki eingöngu um afleiðingar verkfalls gagnvart sjómönnum og mörkuðum okkar og öðru því um líku og þjóðarbúinu í heild heldur gleymist oft í umræðunni að þetta bitnar harkalega á fiskverkafólki í landinu, hátt í 2 þús. manns, sem er núna á atvinnuleysisbótum út af verkfallinu og hefur sem sagt verið tekið út af launaskrá, lækkað í launum. Sumir hverjir eiga engan rétt á atvinnuleysisbótum og þurfa að fara á framfærslu sveitarfélaga. Uppsagnarákvæði fiskverkafólks er líka eitthvað sem við þurfum að endurskoða hérna. Sú stétt býr við gífurlegt óöryggi ein stétta varðandi þessi mál. Ég tel að skoða þurfi hvort ekki sé hægt að leggja fram mál á Alþingi, og mun beita mér í því, sem styrkir uppsagnarákvæði fiskverkafólks, samanber aðrar stéttir í landinu. Það er ekki ásættanlegt að sá hópur sitji eftir og sé látinn með þessum hætti gjalda fyrir vinnudeilur. (Forseti hringir.) Það þarf að beita sér í því að laga stöðuna gagnvart fiskverkafólki.


Efnisorð er vísa í ræðuna