146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að skoða í það minnsta hvort Póst- og fjarskiptastofnun ætti betur heima undir dómsmálaráðuneytinu, einfaldlega af því að stofnunin hefur eðlisbreyst mikið og jafnvel heitið á henni er ekki viðeigandi miðað við þá miklu og öru þróun sem hefur átt sér stað í samskiptum, sem eru minna í gegnum póst og meira í gegnum internetið. Ég segi þetta af fenginni reynslu af miklum samskiptum við þessa stofnun í gegnum tíðina.

Svo langar mig til að spyrja — þetta er allt of stuttur tími — hvort það hafi verið rætt, í ljósi þessara uppstokkana, að meiri samvinna og flæði verði á milli ráðherra en áður hefur verið af því að nú eru þrír flokkar í ríkisstjórn.