146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um kostnað við þessar breytingar. Það er nokkuð loðið orðalag þar sem kemur fram að þessi breyting kunni í einhverjum tilvikum að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Mér finnst ekki björgulegt að fara af stað með svona kerfisbreytingu í Stjórnarráðinu með því að fjölga ráðherrum upp í 11, og ég get ekki betur séð en að þeir séu flestallir með tvo aðstoðarmenn, að ekki liggi fyrir skýrari tölur en bara eitthvað um að það kunni að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti nefnt okkur einhverjar sirka-tölur í þeim efnum. Vonandi hefur hann einhverjar hugmyndir um það, ekki síst þegar hæstv. fjármálaráðherra er kominn hér á bekkinn, hann hlýtur að hafa metnað til að hafa einhverja hugmynd um hvað þetta kostar fyrir ríkissjóð.