146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta verði hin skemmtilegasta umræða og gaman að heyra hæstv. fjármálaráðherra mæla hér fyrir auknum ríkisútgjöldum. (Gripið fram í: Forsætisráðherra.) Forsætisráðherra. Og það er ekki bara báknið burt og ekki einu sinni báknið kjurt heldur báknið byggt upp núna hjá Sjálfstæðisflokknum. Og rökin þau að það megi þá hagræða einhvers staðar annars staðar á móti óhagræðinu. Það sé vissulega óhagræði en hægt að hagræða annars staðar. Væri það ekki hægt hvort sem er?

Auðvitað hefur núverandi ríkisstjórn og sú næsta á undan henni þegar ákveðið heilmikil ríkisútgjöld með því að vera nú komin með 11 ráðherra í átta ráðuneyti. Það er kostnaður sem hleypur á fleiri tugum milljóna ef ekki hundruðum. Það er ráðherrann, ráðherrabílstjórinn, ritari, tveir aðstoðarmenn o.s.frv. En hér á auðvitað að ganga lengra og búa formlega til tvö ráðuneyti.

Í greinargerð með þessari tillögu er látið að því liggja að viðbótarkostnaðurinn verði helst einn ráðuneytisstjóri. Annars er eiginlega ekkert um þetta sagt og allt vafðist hér fyrir hæstv. forsætisráðherra áðan í svörum. Ég spyr, og það er einföld spurning, frú forseti: (Forseti hringir.) Er þetta boðlegt kostnaðarmat með stjórnartillögu af þessu tagi? Hvað er orðið um að það eigi að fylgja ítarlegt og vandað kostnaðarmat frumvörpum og stjórnartillögum?