146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við förum væntanlega betur yfir þetta allt í umræðunni hér á eftir. En ég bendi hæstv. ráðherra á að það má væntanlega færa þessi rök fram víða. Hvar endar það? Hefur hæstv. ríkisstjórn áttað sig á því að hún er í raun og veru að taka upp alveg nýja stefnu og gagnstæða þeirri sem hefur verið leiðarljós í opinberum rekstri frá hruni? Og lærdóma af því sem þar var fram dregið, að við værum með allt of margar og dreifðar einingar og veikburða í flókinni nútímastjórnsýslu og það bæri að stefna að sameiningu ráðuneyta og stofnana og styrkja þannig faglega getu viðkomandi aðila. Nú er ríkisstjórnin og reyndar fyrri ríkisstjórn að hluta farin á fulla ferð með þetta aftur á bak. Menn eru fljótir að gleyma. Eins og ég segi, búið að bæta þremur ráðherrum inn í ráðuneytin. Þetta eru menn sem þykjast vera alveg sérstaklega góðir í því að halda aftur af ríkisútgjöldum og passa að báknið blási ekki út. (Forseti hringir.) Það er ýmislegt mótsagnakennt í þessu en við skulum fara betur yfir hin faglegu rök með og á móti þegar við höfum meiri tíma í almennri umræðu.