146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta batnar alltaf. Nú kemur hér þingmaður Sjálfstæðisflokksins og ég heyrði ekki betur en að hann væri að mæla fyrir nokkrum nýjum ráðuneytum í viðbót. Þetta verður mjög áhugavert.

Svo gæti verið gaman að fletta upp á ræðum stjórnarandstæðinga þegar Stjórnarráðið var til umfjöllunar á útmánuðum líklega 2011. Þær umræður urðu nokkuð langar, ef ég man rétt. Þá var þetta ekkert smámál. Það er því varla við því að búast að þetta færi hér í gegn á örfáum mínútum núna, við hljótum að gefa okkur upp undir sambærilegan tíma til að ræða þetta stóra mál, breytingar á nafngiftum ráðuneyta, nú eins og var gert á þeim tíma.

En við skulum ekki alveg gleyma rökunum fyrir þeim breytingum sem ráðist var í í áföngum á kjörtímabilinu 2009–2013. Þar kom auðvitað margt til. Það var þörfin fyrir að hagræða alls staðar í opinberum rekstri þar sem mögulegt var og sýnilega og sannanlega hlaust hundraða milljóna króna hagræði af þeim breytingum. Það liggur algerlega fyrir. En það voru ekki síður sterk fagleg rök fyrir því, sem m.a. skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og sérnefndar Alþingis, sem vann úr þeirri skýrslu, lagði á borðið fyrir okkur, að veikleikar íslenskrar stjórnsýslu væru mjög mikið þeir að hún væri dreifð, hún væri í fámennum einingum, hún væri faglega óburðug og það vantaði samlegðaráhrif og styrk til þess að leysa úr viðfangsefnum flókinnar nútímastjórnsýslu. Og hvernig var þetta? Jú, við vorum með ráðuneyti sem voru með niður undir 12, 15 starfsmenn. Það var fullt af skrifstofustjórum í Stjórnarráðinu sem voru skrifstofustjórar yfir sjálfum sér eða svo gott sem. Það var löngu tímabært að stokka þetta upp. Ég tel að þær breytingar hafi í grunninn verið vel undirbúnar, vel hugsaðar og gefist vel.

Velferðarráðuneytið varð m.a. til vegna þess að menn þekktu vandamálin, landamærin innan velferðarmálanna, milli hins félagslega hluta og heilbrigðishlutans. Ein hugsunin var sú með velferðarráðuneytinu að þessi landamæri hyrfu, nú væri allt komið undir eitt ráðuneyti.

Eru ekki sterk fagleg rök fyrir því að sameina á einum stað málefni atvinnuveganna á jafnræðisgrundvelli og nýsköpunar? Jú, ég skyldi ætla það. Menn segja núna með innanríkisráðuneytið að þarna séu svo eðlisólíkir hlutir að þeir eigi ekkert saman. Ég er ekki viss um að þau rök séu sterkari í þessu tilviki en í fjölmörgum öðrum ráðuneytum. Þetta er ráðuneyti innviða landsins, samgangna, og er það endilega svo óskylt að sýslumenn, löggæsla, lögregluumdæmi og annað því um líkt, falli saman undir það ráðuneyti? Það á líka ýmislegt sameiginlegt þegar verið er að byggja upp innviðina og skipuleggja slíka opinbera þjónustu.

Ég hefði helst talið að ef það vantaði viðbótarráðuneyti, a.m.k. tímabundið miðað við aðstæður á Íslandi, þá væri það ráðuneyti ferðamála vegna þess einfaldlega hvað sú grein er orðin stór og afgerandi mikilvæg og vegna þess að hún er í svo mikilli ummótun, umbreytingu og vexti. Meðan svo varir gætu verið góð rök fyrir því að hafa sjálfstæðan og ég tala nú ekki um ef það fengist öflugur ráðherra ferðamála, þannig að það færu ekki fleiri glötuð ár í vaskinn eins og allt síðasta kjörtímabil var þar sem bókstaflega ekkert gerðist í þeim efnum.

Ég minni þar af leiðandi á þá lærdóma sem við vorum að reyna að draga af þessu, að styrkja frekar stjórnsýsluna, sameina stofnanir og sameina ráðuneyti, að búa til þá stærð að hægt sé að sérhæfa starfsfólk og það má færa fram mörg dæmi um það. Um leið og ráðuneyti er orðið það stórt og fjölmennt, þ.e. með 30, 40, 50 starfsmenn eða svo, er hægt að stofna lagaskrifstofu og þá er hægt að sérhæfa einhverja lögfræðinga í sjálfstæðri skrifstofu innan þess ráðuneytis, en það er tæpast hægt meðan unnið er með 10, 15, 20 menn. Fjármáladeildir slíkra ráðuneyta verða að sjálfsögðu öflugri eftir því sem þau eru stærri og hafa meira umleikis og er það ekki þar m.a. sem þarf að byggja upp og efla vegna nýrra laga um opinber fjármál? Þetta nýja ráðuneyti verður auðvitað að byggja upp einhverja fjármálaskrifstofu.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hafa menn farið vel yfir það hvar sömu rök gætu átt við og þeir tíunda nú hér af ákefð, til að skerpa á hinni pólitísku stefnumótun og hafa þetta skýrara? Á það ekki miklu víðar við? Og í hvað mörgum ráðuneytum endum við ef við förum alla leið með þann málflutning? Ég velti því fyrir mér hvaða hugmyndir hæstv. ríkisstjórn hefur um endanlegan fjölda ráðuneyta. Á að fara aftur upp í 12? Þeir eru komnir langleiðina í gegnum það að fjölga bara ráðherrunum. En það er þó munur á því að setja tvo ráðherra inn í eitt ráðuneyti en að búa það til sem alveg sjálfstætt ráðuneyti. Sú heimild er líka til staðar að skipa aðstoðarráðherra. Það held ég að væri miklu betri þróun og meira í takt við það sem er í nágrannalöndunum. Þar eru stór og öflug ráðuneyti, það er einn yfirráðherra en hann tekur með sér eftir atvikum einn, tvo, þrjá og jafnvel fleiri aðstoðarráðherra sem sinna tilteknum sviðum innan ráðuneytisins, undir ráðherranum og á hans ábyrgð. Þá er ábyrgðarkeðjan skýr og ekkert vandamál með það. Danski utanríkisráðherrann hefur þrjá eða fjóra aðstoðarráðherra ef ég man rétt. Svona „junior“ráðherraembætti er vel þekkt.

Varðandi kostnaðinn endurtek ég gagnrýni mína, herra forseti, á þennan fátæklega málflutning eða rökstuðning í greinargerð með tillögunni. Mér finnst þetta ekki boðlegt, ég ætla bara að nota íslensku um það. Mér finnst ekki boðlegt af hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra að koma hér með tillögu þar sem nánast er verið að breiða yfir það með óljósu orðalagi að þessu muni auðvitað fylgja mikill kostnaður. Já, að hluta til hefur ríkisstjórnin þegar ákveðið þessi auknu ríkisútgjöld — til hamingju með það, sérstaklega frjálshyggjumenn í stjórnarliðinu, það leggur bara vel af stað hjá ykkur — vegna þess að með því að bæta inn ráðherra kemur ráðherrann sjálfur með viðeigandi kostnaði og svo biðlaunum þegar hann hættir, það koma tveir aðstoðarmenn, það er nú mjög í tísku að ráða strax tvo aðstoðarmenn, sumir ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn höfðu ekki náð sólarhring í embætti þegar þeir voru búnir að ráða tvo aðstoðarmenn, ég tók eftir því, það er vasklega gert. Kannski gengur svona undan þeim á öðrum sviðum. Það er ritari fyrir ráðherrann að sjálfsögðu, það er ráðherrabílstjóri o.s.frv. Þetta er talsvert meira mál en menn vilja vera láta. Mér finnst þetta í raun óboðleg kostnaðargreining á þessu. Það á eftir að koma í ljós, segir ráðherrann, þegar búið verður að fara betur yfir það í innanríkisráðuneytinu hvað þetta muni hafa í för með sér og hvort það þarf að ráða inn viðbótarmannskap o.s.frv. Með öðrum orðum er þetta ekki faglega undirbúin ákvörðun sem hér er borin undir þingið sem byggir á vandaðri greiningu og þar sem búið er að ákveða fyrirkomulagið. Þetta er pólitísk ákvörðun ofan frá af því að það þurfti að fjölga ráðherrum. Það er bara þannig. Það blasir við. Hvar er greiningin? Hvar er undirbúningurinn? Enda gerist þetta allt á örfáum dögum.

Ég vara við því að menn ani af stað í svona hluti án þess að hafa lagt það vel niður fyrir sér hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt. Ég endurtek að ég hefði þá miklu fremur viljað sjá að menn nýttu sér heimildir til að hafa aðstoðarráðherra sér við hlið ef menn treysta sér ekki í verkefnið, telja sig ekki ráða við ráðuneytið, það sé svo stórt og flókið, við hljótum að einhverju leyti að áætla að það sé ástæðan hér, en færu varlega í það að fara að kljúfa aftur upp ráðuneyti. Það þyrfti að mínu mati að byggja á mjög vandaðri greiningu og vera vel undirbúið og það þarf að vera hægt að selja manni það þannig að maður hafi trú á því, að þetta verði ekki til þess að við leggjum af stað í hina áttina með veikari stjórnsýslu, dýrari um leið, það verði minni faglegir burðir til þess að takast á við hin flóknu viðfangsefni nútímastjórnsýslu, málsmeðferðarreglna o.s.frv., og við förum þar af leiðandi að leggja af stað í öfuga átt og lenda í gamla farinu í þessum efnum.

Mér finnst líka fyndið að Sjálfstæðisflokkurinn, sem sló sér á brjóst og vildi báknið burt og draga úr ríkisumsvifum, sé sérstakur málsvari þessa og hafi í raun og veru lagt af stað með Stjórnarráðið í þessa átt, bæði á þessu kjörtímabili og hinu síðasta. En það eru kannski komnir þeir tímar að nú telji menn að við séum orðin svo rík aftur að við getum látið hvað sem er eftir okkur. Kostnaðurinn er í mínum huga samt ekki stærsta atriðið í þessum efnum. Að sjálfsögðu þarf að kosta því til sem þarf til að hafa öflugt Stjórnarráð og vel uppbyggð og myndug ráðuneyti. Við eigum fyrst og fremst að horfa á hina faglegu þætti. Þar hef ég grundvallarefasemdir um að stefnan sé í rétta átt með þessu.