146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:52]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt sem fram kemur undir lok ræðu hv. þingmanns að gera aðskilnað á milli rekstrarlegu kostnaðarþáttanna annars vegar og faglegu stjórnarinnar hins vegar. Það er það sem við erum að reyna að gera í þessu máli. Það er rétt að muna að í sjálfu sér er hægt að setja annan ráðherra, eins og nú er búið að gera, í ráðuneytið. Það fylgir auðvitað ýmislegt slíkri ákvörðun, eins og var komið inn á: Já, já, bílstjóri, já, já, ritari og það sem fylgir slíkri ákvörðun. Það er í sjálfu sér ekki þess vegna nauðsynlegt að tilgreina slíka þætti þegar kemur að spurningunni um það hvort eigi að skapa úr einu innanríkisráðuneyti tvö ráðuneyti samgöngumála, annars vegar sveitarstjórnarmála og hins vegar dómsmála, heldur eru aðrir þættir sem hafa verið reknir saman sem menn myndu sérstaklega horfa til.

Það sem ég vil einfaldlega leggja á áherslu er hin pólitíska stefnumörkun. Það er enginn ágreiningur við mig um að efla þurfi þær stjórnsýslueiningar sem við erum með. Ég nefni að það eru fleiri leiðir til í því en að setja samgöngumál saman við dómsmál. Það má alveg eins halda áfram með þá röksemdafærslu sem segir að þetta sé slæmt út af óhagræðinu og spyrja: Af hverju var þá bara ekki gengið lengra? Hvers vegna erum við ekki með þrjú eða fjögur ráðuneyti? Þurfum við 63 þingmenn?

Ég held að við leggjum hér til vel rökstudda breytingu sem leiðir m.a. af nýjum áherslum, breyttum verkefnum sem hafa orðið meira íþyngjandi. Þetta er ekki slík grundvallarbreyting að hún leiði til þess að það komi nýir ráðherrar heldur er það út af fyrir sig atriði sem hægt er að (Forseti hringir.) hrinda í framkvæmd án tillögu um uppskiptingu ráðuneytanna. Þetta er fyrst og fremst hugsað til þess að styrkja stjórnsýsluna á hvorum stað um sig.