146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé orðið að einhverju náttúrulögmáli að ráðuneytin eigi bara að vera átta. En þá ættum við líka að spyrja okkur: Ef á að fjölga ráðuneytum er það alveg hafið yfir vafa að þörfin sé mest þarna? Er það? Ég er ekki endilega viss um það. Ef við horfum til Stjórnarráðsins eins og það er núna þá eru auðvitað innan atvinnuvega- og viðskiptaráðuneytisins langstærstu þættirnir sem áður voru í mörgum ráðuneytum, þótt vissulega sé búið að flytja aðeins út úr því inn í fjármála- og efnahagsráðuneytið og hingað og þangað. En það er ekki langt síðan að að stofni til voru það þrjú, fjögur ráðuneyti. Er þá ekki erfitt fyrir einn, að vísu núna tvo starfandi ráðherra, að hafa yfirsýn yfir það allt saman? Er svo óskaplega erfitt að hafa yfirsýn yfir innviðamálin, dómsmál og samgöngumál, sem sumpart virðast alveg óskyld en að öðru leyti eiga ýmislegt sameiginlegt þegar upp er staðið?

Ég tel t.d. að ágætt sé að hafa sveitarstjórnarmálin þarna. Sveitarstjórnarmál, samgöngur og dómsmál og svo þjónusta sem er í réttarkerfinu, löggæsla og sýslumenn og annað slíkt, þetta er ekki óskaplega óskylt, ekki finnst íbúum hinna dreifðu byggða það. Það tel ég ekki vera.

Mér finnst vera bráðræðisleg og ekki vel undirbyggð breyting á þessu. Mig skortir enn söluvænleg eða kaupanleg rök, vil ég segja, og gruna hæstv. ríkisstjórn um að þetta sé aðallega af pólitískum ástæðum. Það varð einhvern veginn að finna út úr því að Sjálfstæðisflokkurinn gæti fengið sjötta ráðherrann, það var svo magurt að hann væri bara með jafn marga og hinir, það olli verulegri upplausn í baklandinu eins og kunnugt er. Þetta eru opinberir hlutir. Ég er ekki að segja neina kjaftasögu. Þetta hefur komið í blöðunum. Þetta varð lendingin, að hnoða inn viðbótarráðherra í (Forseti hringir.) innanríkisráðuneytið og setja svo undir hann ráðuneyti. Það er fulldýrt, finnst mér, þegar þarf að leysa pólitískar innantökur (Forseti hringir.) í ríkisstjórnarflokki.