146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[12:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að taka til máls um þessa þingsályktunartillögu sem ég fagna mjög að sé komin fram. Ég tek undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, ég tel ráðlegt að ráðast í uppstokkun. Engu að síður hef ég ávallt talað fyrir hagkvæmni í ríkisrekstri og hagræðingu. Í greinargerðinni er fjallað um mikilvægi þess að efla stoðþjónustu fyrir öll ráðuneytin og vinna þannig að hagræðingu. Sá undirbúningur hefur staðið yfir í nokkurn tíma og er, held ég, algjörlega nauðsynlegur til að auka framleiðni, skilvirkni og kostnaðarhagræðinguna.

Ég tók ekki þátt í umræðunum um sameiningu ráðuneyta á sínum tíma eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon en ég kynnti mér það mál í námi mínu, m.a. skýrsluna um samhenta stjórnsýslu. Ég fagna því þegar leitast er við að hafa hagkvæmni í ríkisrekstri, eins og komið hefur fram til að mynda í þeim umræðum sem verið hafa hér um atvinnuvegaráðuneyti og svo aftur í umræðum um sérstakt ráðuneyti varðandi ferðaþjónustu. Ég hef ekki verið sérstakur talsmaður þess og finnst að atvinnuvegirnir eigi best heima í einu ráðuneyti. Ég starfaði lengi við stoðþjónustu atvinnulífsins og þá sér maður hvað atvinnugreinarnar skarast víða. Ég hef talað fyrir því að þær séu í einu ráðuneyti. Reynsla mín sem sveitarstjórnarmaður segir mér, og við á sveitarstjórnarstiginu höfum oft rætt það, að innanríkisráðuneytið sé einfaldlega of stórt, með of dreifða og of viðamikla málaflokka til að það virki sem skyldi. Ég held að skynsamlegt sé að horfa til þess að samgöngumálin og fjarskiptamálin, og þá sveitarstjórnarmálin, séu í sérstöku ráðuneyti og svo dómsmálin í öðru, en mikið álag hefur verið á dómskerfinu okkar varðandi útlendingamál og fleira.

Mér hugnast þessar breytingar. Ég vil líka leggja áherslu á að fylgt verði eftir þeim áherslum sem verið hafa í stjórnsýslufræðunum um samhenta stjórnsýslu. Ég vil að við skoðum sérstaklega rafræna stjórnsýslu og að við þurfum að komast áfram í þeim efnum. Það eykur hagkvæmni í ríkisrekstri mikið og til þess að ná góðum árangri í rafrænni stjórnsýslu er líka mikilvægt að hafa ákveðna miðstýringu í slíkum málaflokkum. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að horfa til stóru myndarinnar þegar við tölum um Stjórnarráðið og hið opinbera, að þar byggist upp ákveðin sérfræðiþekking á málaflokkunum, en að sameiginlegir þættir, eins og tölvu- og upplýsingamálin, og einnig er hægt að nefna mannauðsmálin og mannauðsskrifstofu sem lengi hefur verið rætt um, launamál, fjármál og annað þess háttar — ég held að það sé mikilvægt að halda sérstaklega utan um þá þætti. Við verðum að halda áfram að brýna forsætisráðherra og fjármálaráðherra til góðra verka í þeirri vinnu.

Ég held að ég segi ekki meira um málið að sinni en fagna framkominni ályktun.