146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[12:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði talið gegna dálítið öðru máli ef þessi tillaga hefði komið fram eftir að ríkisstjórnin væri búin að starfa í ár og við værum m.a. farin að sjá einhvern afrakstur af þessari viðleitni til þverfaglegrar samþættingar innan Stjórnarráðsins, hvað hefði komið út úr því o.s.frv. En hér er rokið til á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar af pólitískum ástæðum. Það vantaði einn ráðherrastól. Þetta er mjög illa undirbyggt, kostnaðarmati er ekki fyrir að fara í greinargerð tillögunnar o.s.frv., þannig að ég gagnrýni líka óðagot í þessum efnum. Ég held að það væri fínt að við tækjum okkur góðan tíma í að fara yfir þessi mál. Ekkert er óumbreytanlegt og tímarnir breytast og nýir hlutir geta að sjálfsögðu kallað á nýtt skipulag í Stjórnarráðinu. Þá á að vanda það og skoða vel og byggja á greiningum og stefnumótun og einhverju sem er þá klárt, t.d. að það lægi alveg fyrir hvernig innanríkisráðuneytið verður þá dregið í sundur hvað varðar mannskap og skipulag. Er til skipurit af þessum tveimur nýju ráðuneytum? Nei, það er væntanlega ekki. Er eitthvað búið að fara ofan í saumana á því hvernig mismunandi hlutar verða þá mannaðir o.s.frv.? Nei, það er ekki.

Svo ættum við auðvitað að byrja á því að spyrja okkur spurningarinnar: Ef þarf að fjölga ráðuneytum, hvar er þá brýnast að byrja? Ef hægri stjórnin vill blása báknið aðeins út, fjölga ráðuneytunum, hvar er þá nauðsynlegast að byrja? Ég er sammála að mörgu leyti því sem kom fram í máli hv. þingmanns um atvinnumálin. Ég taldi og tel enn mjög sterk rök fyrir því að sameina í einu burðugu ráðuneyti málefni allra atvinnugreina og vera jafnvel ekkert að nefna það sérstaklega í heitunum, það er seinni tíma bastarður sem kom til þegar þurfti tvo ráðherra inn í ráðuneytið, og nýsköpunina. Það fer mjög vel saman. En ég er líka sammála því að ef það er einhvers staðar aðkallandi þörf fyrir nýtt ráðuneyti tímabundið á Íslandi er það í ferðamálunum. Ég myndi styðja það að tímabundið yrði til sjálfstætt ráðuneyti ferðamála á meðan við erum að ná tökum á vextinum í þeirri grein og þeim ótal mörgu (Forseti hringir.) krefjandi viðfangsefnum sem þar eru, það væri réttlætanlegt og þar hefði ég byrjað en ekki á því að búa til nýjan ráðherrastól í innanríkisráðuneytinu.