146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[12:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins fá að blanda mér í þessa fyrri umr. um þingsályktunartillögu um breytingu á Stjórnarráðinu. Ég hef hlustað á umræðuna. Það er margt rétt sem komið hefur fram, oft og tíðum förum við í tvær áttir. Annars vegar reyna menn að hafa hagræðingu í kerfinu og á sama tíma að búa til stór og öflug ráðuneyti þar sem nægileg fagþekking er, en hins vegar þarf í sumum tilvikum, eftir áherslum ríkisstjórna eða kannski bara vegna breyttra tíma, að fara í hina áttina og leggja meiri og skýrari áherslu á ákveðna málaflokka, taka þá út úr því stóra samhengi sem þeir eru í. Það stangast oft svolítið á þannig að ekki er auðvelt að eiga við það.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, og hélt hér nokkrar ræður um það árið 2011, að margt sem þá var gert hafi ekki endilega verið skynsamlegt. Og ekki hefur allt reynst vel. Þá var tilhneiging til þess að stækka málaflokkana, reyna að skapa hagræðingu, sem ég er ekki viss um að hafi alltaf skilað sér að lokum. Niðurstaðan er engu að síður sú að þrátt fyrir að við séum með nokkur mjög stór ráðuneyti er þar of fátt fólk. Nú á þessum síðustu og verstu tímum gerum við sífellt meiri kröfur á að stjórnsýslan sé fagleg og að mikil þekking sé þar, en í mörgum tilfellum, í mörgum ráðuneytum, er þekkingin hjá einum starfsmanni. Ef hann hættir sökum aldurs eða fer til annarra starfa eða eitthvað kemur upp á er þekkingin oft og tíðum horfin úr ráðuneytinu. Það er auðvitað meingallað. Tilhneigingin gæti þá verið sú að búa til enn stærri ráðuneyti. Sú ríkisstjórn sem þá situr ætlar að leggja áherslu á einhverja málaflokka, en það verður einfaldlega ekki svigrúm eða geta hjá einum ráðherra nema við myndum breyta fleiri þáttum þannig að það kæmi fleira fólk með ráðherranum sem hefði puttana og augun á þeim málum sem þar eru.

Ég er sammála þeirri hugmynd að innanríkisráðuneytið sé of stórt og að þar séu í eðli sínu of ólík mál. Ég hef þess vegna fullan skilning á þeirri tillögu að búa til sér dómsmálaráðuneyti með öðrum þeim málaflokkum sem þar geta tengst. Gallinn við það verður auðvitað sá að það verður frekar lítið ráðuneyti og ekki í samræmi við hin stóru ráðuneyti. Það má líka nefna að umhverfisráðuneytið hefur heldur ekki stækkað mjög mikið þótt málaflokkarnir þar séu talsvert umfangsmiklir.

Eftir að hafa fengið að sitja sem ráðherra í þremur ráðuneytum á síðasta kjörtímabili velti ég því mjög fyrir mér hvernig ég myndi vilja sjá uppskiptinguna á kerfinu eins og það lítur út og sýnist sitt hverjum um hvað er skynsamlegast í þeim efnum. En mér finnst líka eðlilegt að ríkisstjórn á hverjum tíma velti því fyrir sér hvernig áherslum hennar verði best fyrir komið, m.a. með uppskiptingu á málefnum á milli ráðuneyta, hugsanlega uppskiptingu einstakra ráðuneyta, án þess þó að það muni verða eitthvert hringl.

Þá komum við að því sem er kannski mikilvægast, og við breyttum reyndar stjórnarráðslögunum í þeim tilgangi á síðasta kjörtímabili þannig að það væri auðveldara að færa starfsfólk á milli. Einn gallinn við íslenska stjórnkerfið og reyndar mörg önnur er að ráðuneytin eru dálítið föst í sínum sílóum, þau tala ekki nóg hvert við annað. Það er ekki nógu mikið flæði á milli þó svo að við höfum verið að reyna það í einstökum málaflokkum, ég nefni byggðamál þar sem verið hefur stýrinet milli allra ráðuneyta. Það virðist ganga en það tekur tíma að þróa það. Þess vegna hef ég skilning á því að skynsamlegt sé að skoða stoðdeild Stjórnarráðsins. Það er líka verkefni sem við vorum búin að skoða hér í nokkur ár. Ég hef fullan skilning á því.

Þegar við komum að því að ræða hverju er skynsamlegast að skipta upp við núverandi aðstæður verð ég að segja alveg eins og er að ég teldi að það hefði mátt fara einhverjar aðrar leiðir í því, hafa öðruvísi uppskiptingu. En ef það er áhersla núverandi ríkisstjórnar að skapa umgjörð um dómsmálaráðuneytið er það hennar ákvörðun og hún gerir þá það með því að koma með þingsályktunartillögu í þingið.

Ég tel nauðsynlegt og skynsamlegt, eins og margur annar hefur nefnt hér og við Framsóknarmenn höfum talað fyrir, m.a. í kosningabaráttunni, að setja á laggirnar ferðamálaráðuneyti, ekki kannski eitt og sér. Ég hefði vel getað séð fyrir mér að samgöngumálin væru þar. Það hefði líka mátt hugsa sér að ferðamálin og umhverfisráðuneytið færu þar saman í þeim tilgangi að búa til stærri og jafnari ráðuneyti. Ég hefði hins vegar kosið að það yrði til ferðamála- og samgönguráðuneyti.

Ég ætla að segja ykkur örstutta sögu um hvar það er sprottið. Fyrir nokkrum árum var ég á Möltu á ráðstefnu sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins. Þar var sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins, Maltverji nokkur, Karmenu Vella, sem ég átti ágæt samskipti við dagana eftir ráðstefnuna. Við Íslendingar höfum talað um að Ísland geti ekki tekið við þeim 2 milljónum ferðamanna ferðamönnum sem hingað koma, en Malta er á stærð við Holuhraun, 0,6% af Íslandi, og þangað koma sem sagt 3 milljónir ferðamanna á ári. Vella sýndi mér ferðaþjónustuna á eyjunni og sagði: „Við gerðum þau mistök þegar ferðaþjónustan byrjaði að blómstra á Möltu, þar sem býr 400 þúsund manna þjóð með 3 milljónir ferðamanna, að við settum ferðamálin inn í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.“ Ég renndi bara fyrir munninn og sagði ekki neitt. Hann hélt áfram: „Svo sáum við að okkur og til þess að geta tekist á við þessa atvinnugrein sem spilar inn í svo margt í samfélaginu í ráðuneytunum settum við á laggirnar sérstakt ráðuneyti í kringum þessa stærstu atvinnugrein okkar.“

Síðan þá hef ég verið nokkuð skotinn í þeirri hugmynd að nauðsynlegt sé að gera slíkt þótt ekki væri nema á meðan við byggjum upp innviði og þann strúktúr sem þarf að vera í kringum ferðamálin. Við Framsóknarmenn höfum talað fyrir því að það sé nauðsynlegt. Við hefðum kosið að það hefði verið gert við þessar aðstæður, þótt menn tækju dómsmálaráðuneytið líka út og það myndi þýða fleiri ráðuneyti.

Það er eitt. Ef við ætlum síðan að reyna að halda í það að vera með eins stór ráðuneyti og hægt er í nafni hagræðingar og fagþekkingar og möguleika á að vera með fleiri en einn starfsmann í hverri sérþekkingu held ég að við þurfum að breyta stjórnarráðslögunum þannig að þar séu þá möguleikar á því að tveir ráðuneytisstjórar séu í hverju ráðuneyti. Það mat er byggt á reynslu minni af síðasta kjörtímabili. Ef við höfum ekki tvo ráðuneytisstjóra þá alla vega að búa til einhverjar leiðir þannig að staðgengill ráðuneytisstjórans væri með ígildi ráðuneytisstjórastöðu í þeim hluta ráðuneytisins sem ráðuneytisstjórinn væri ekki.

Ég tel það vera skynsamlegt, nauðsynlegt, og ég held að það sé eini valkosturinn á móti því að skipta upp öllum stóru ráðuneytunum að nýju, að halda áfram að reyna að þróa stjórnsýsluna. Tilgangurinn og markmiðið hlýtur að vera að efla fagþekkinguna, að auka samstarfið á milli ráðuneytanna þannig að Stjórnarráðið virki sem ein heild. Að hluta til held ég að sú leið sem hér er farin gagnist í þeim efnum, en að öðru leyti leysir hún engan veginn þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í íslensku samfélagi.