146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það væri auðvitað hægt að fara í skatt- og gjaldabreytingar til þess að afgangurinn væri meiri og svigrúmið meira einmitt þegar við erum á þessum stað í hagsveiflunni.

Það er talað um hættumerki hérna vegna gjaldmiðilsins, vegna styrkingar krónunnar, vegna áhrifa ferðaþjónustunnar á þessa hluti. Við vitum að ósjálfbær vöxtur ferðaþjónustunnar hefur líka áhrif á húsnæðismarkað o.s.frv. Þetta er nefnt í stefnunni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að tekið verði á þessum vanda, að þau tæki sem við búum yfir, eins og t.d. hækkun skatta eða lækkun skatta eða hvatar sem við getum beitt út í atvinnulífið og til að reyna að stýra þróun sem þar er, verði notuð til að slá á þau hættumerki sem lýst er í greinargerð með stefnunni.