146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir ágæta yfirferð. Bara fyrst, það getur vel verið að mér hafi misheyrst, en getur verið að ráðherra hafi talað um afgang af rekstri ríkissjóðs um 25–38 milljarða kr. fyrstu tvö árin, en í greinargerðinni stendur 25–43? Er eitthvert misræmi á milli þess sem er í þingskjalinu og þess sem var sagt?

Annað. Seðlabankinn hefur gagnrýnt það markmið að tekjuaukningu séu settar skorður af hagsveiflu, hefur sagt að stefnumiðið virðist fyrir fram setja skorður við sjálfvirka sveiflujöfnun á tekjuhlið opinberra fjármála og fela í sér að ef hagvöxtur reynist kröftugri skuli gefa eftir tekjur og jafnvel að skera þurfi útgjöld enn frekar niður ef hagsveiflan verður ekki jafn jákvæð og vonast er til.

Hvað segir (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra við gagnrýni Seðlabankans á þau stefnumið sem sett eru í fjármálastefnunni?