146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er almennt fylgjandi þeirri hugsun sem birtist í lögum um opinber fjármál um að eðlilegt sé að ríkið geri sér fimm ára áætlanir. Það eitt og sér finnst mér skipta mjög miklu máli. Það skiptir máli fyrir stofnanir sem starfa innan ríkisins, hvaða væntingar þær geta gert sér um framlög og annað slíkt. En þegar búið er að lögbinda það til að mynda að ef skuldir ríkisins fara yfir tiltekið hlutfall skuli þær lækka um tiltekið hlutfall árlega, þá spyr ég: Hvert er þá svigrúm framkvæmdarvaldsins til þess að forgangsraða fjármunum til velferðar- og menntamála, segjum á krepputímum, í stað þess að lækka skuldir? Ekki samkvæmt lögunum. Þá var því svarað hér til að þá mætti nú bara taka lögin úr sambandi. Ókei, ef taka má lögin úr sambandi, af hverju erum við þá með það yfir höfuð í lögum? Er þá ekki bara eðlilegra að hver og ein ríkisstjórn marki sér stefnu sem miðast við stöðu efnahagsmála á hverjum tíma og pólitíska sýn hverrar ríkisstjórnar? Þessi markmið einkennast mjög af þeirri niðurskurðarstefnu sem rekin hefur verið til að mynda innan Evrópusambandsins á undanförnum árum sem viðbrögð við kreppu sem hefur fyrst og fremst orðið til þess, að mínu viti og margra hagfræðinga, að framlengja þá kreppu, dýpka hana, og það bitnar verulega á útgjöldum ýmissa ríkja ESB til velferðar- og menntamála.

Síðan vil ég segja hvað varðar lög um opinber fjármál að þeim fylgdu fjárveitingar til allra ráðuneyta til að innleiða hina breyttu aðferðafræði við að skipuleggja fjármál ríkisins. Ég styð það. Það er mjög gott. En Alþingi fékk ekki aukafjárveitingu til þess að þingmenn geti sinnt hér sínu mikilvæga aðhaldshlutverki við það að fylgja því eftir hvernig fjármunum ríkisins er dreift. Það er stærsta og mikilvægasta verkefni þingsins á hverjum tíma. Þetta er pólitísk stefnumótun meiri hlutans og það er mjög mikilvægt að minni hlutinn taki líka þátt í þeirri stefnumótun. En Alþingi hefur því miður ekki fengið nægjanlegt svigrúm til að fylgja eftir sínu lögboðna hlutverki. Ég leyfi mér að segja að ég hef áhyggjur af hlutverki Alþingis þegar kemur að fjárstjórnarvaldinu, sem samkvæmt (Forseti hringir.) stjórnarskrá liggur hér og hvergi annars staðar. Ég tel að Alþingi hafi ekki verið gefið nægjanlegt svigrúm til að sinna því hlutverki.