146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:59]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Takk fyrir þetta. Ég hlakka sömuleiðis til að starfa með hv. þingmanni í allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég held að það sé alveg ljóst þegar við ræðum um forgangsröðun í ríkisrekstri að við einblínum á nokkur atriði og það fá. Það var einmitt það sem ég var að koma að í ræðunni, að við þurfum að hugsa hvert hlutverk ríkisins er. Hlutverk ríkisins, það væri kannski hægt að setja það saman í fimm atriði, eru heilbrigðismál, menntamál, samgöngur, öryggismál ríkisins og svo eru það auðvitað velferðarmál og almannatryggingar. Þar fellur undir að sjá þeim fyrir góðu lífi sem ekki geta gert það sjálfir og að tryggja frelsi fatlaðra einstaklinga til eigin lífs. Við höfum það í ríkisstjórnarsáttmálanum að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð sem eitt af meginformum þjónustu við fatlað fólk og það rýmist innan þessarar forgangsröðunar. En þar sem þarf að gæta sín í eyðslu er á öðrum sviðum en þessum og þar þurfum við að endurhugsa hlutina.