146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er hið stefnumarkandi plagg hverrar ríkisstjórnar á hverjum tíma. Þar er ekki margt sem kemur á óvart, það er hægt að segja það.

Eins og fram kom í andsvörum í upphafi þessa máls við hæstv. ráðherra er þetta framhald á þeirri stefnu sem lögð var fram af síðustu ríkisstjórn. Því miður ber plaggið þess merki að lítið verður hægt að gera eða koma til móts við það sem við vinstra fólk a.m.k. höfum talið að þyrfti að gera. Það fyrsta sem manni dettur í hug er að dregið hefur úr hlut tekjuskatts í fjáröflun ríkissjóð í tíð síðustu ríkisstjórnar. Einnig hefur verið horfið frá þeirri beitingu tekjuskattsálagningar í tekjujöfnunarskyni sem innleidd var á starfstíma vinstri stjórnarinnar og þriggja þrepa skattkerfi þar sem álagningarprósenta réðst af fjárhæð tekna og svo álagningu auðlegðarskatts. Síðasta ríkisstjórn lét það vera meðal sinna fyrstu verka að falla frá álagningu auðlegðarskatts, þ.e. álagningarprósenta tekjuskatts á einstaklinga var lækkuð og milliþrepið í skattstiganum var afnumið. Eins og gefur að skilja koma þessar ráðstafanir ekki öðrum skattgreiðendum að gagni, eins og við höfum ítrekað séð í öllu því sem rannsakað hefur verið, og koma þeim til góða sem eru með góðar tekjur og eignamiklir. Með þessu var dregið úr tekjujöfnunaráhrifum tekjuskattsálagningarinnar sem við Vinstri græn erum afskaplega mótfallin.

Svo er það hið háa hlutfall skatta á vöru og þjónustu þar sem hlutdeild virðisaukaskattsins er yfirgnæfandi. Skattstefnan og mótun hennar heldur áfram núna, að mér sýnist, en algjörlega er litið fram hjá kjarajöfnunarhlutverki skattkerfisins af því að neytendur vöru- og þjónustu greiða allir sama virðisaukaskattshlutfallið án tillits til tekna eða efnahags. Eins og við þekkjum leggst það á ýmsar nauðsynjar sem almenningur þarfnast og er augljóst að skattbyrði þeirra sem hafa úr minna að moða er heldur þyngri en hjá hinum. Því miður virðist þetta vera áframhaldandi og ekki eru boðaðar neinar breytingar í þessum efnum.

Svo hafa verið felld niður vörugjöld og tollar á annan varning og matvæli og annað slíkt sem engin vissa er um að skili sér að fullu til neytenda, af því að þessi ríkisstjórn hefur í stefnuyfirlýsingum sínum og í kosningabaráttunni talað um hag neytenda og sett þá framarlega, einkum flokkur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Þær lækkanir sem nú þegar hafa orðið og boðaðar eru í stefnu í landbúnaðarmálum eru ekki til þess fallnar að laga þetta ástand, eða ég held ekki. Það er eitt að boða framboð, annað að boða velferð og hitt að boða það þannig að það skili sér til neytenda.

Ef horft er til þess að talin er hætta á að eftirspurnarþensla verði til þess að hrinda af stað verðbólgu og skapa viðskiptahalla við útlönd er óhætt að segja að lækkun skatta og annarra opinberra gjalda, sem ég rakti hér áðan, hafi vakið athygli, enda er það þekkt og staðfest að slíkar ráðstafanir eru síst til þess fallnar að draga úr eftirspurnarþenslu. Eins og fram kom í morgun, andstætt þeim sjónarmiðum sem ítrekað hafa birst í skýrslum peningastefnunefndar er beinlínis varað við skattalækkunum og þær taldar stríða gegn markmiðum um að lækka stýrivexti.

Ráðherrann sagði þó að reksturinn væri í járnum ef tekið væri tillit til hagsveiflunnar. Það höfum við Vinstri græn ítrekað bent á allt síðasta kjörtímabil. Því er ekki breytt hér. Reglulegir tekjustofnar hafa verið veiktir og reksturinn byggist mjög á óreglulegum tekjum, staðan í ríkisfjármálum í dag byggist fyrst og síðast á þessum óreglulegu tekjum.

Það vakti athygli mína að ráðherrann sagði að það vantaði u.þ.b. 5 milljarða til að ná markmiði um niðurgreiðslu skulda. Ég gat ekki betur heyrt en hann boðaði annaðhvort samdrátt eða aukna einkaneyslu eða að einhvers staðar annars staðar þyrfti að draga saman í kerfinu til þess að ná þessu markmiði, því að ekki væri gert ráð fyrir auknum tekjum nema að verulega litlu leyti. Þá nefndi hann grænan skatt eitthvað aðeins í sjávarútveginum og svo bílastæðagjöld. Það er vert að vekja athygli á því að bílastæðagjöld eiga ekki að standa undir neinu öðru en byggingu og rekstri bílastæðanna, en ekki koma sem beinar tekjur í ríkissjóð.

Það segir hér á bls. 3 í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Mikill og viðvarandi vaxtamunur við önnur lönd hefur líka þann annmarka til lengri tíma litið að drepa í dróma fjárfestingar í nýsköpunar- og sprotastarfsemi sem hagvöxtur framtíðarinnar þarf í auknum mæli að byggjast á.“

Síðar er verið að talað að tryggja stöðugleika og einnig að opinber fjármál vinni með peningastefnu Seðlabankans.

Það sem ég rakti áðan finnst mér ekki harmónera við það sem hér kemur fram þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi líka sagt að Seðlabankinn hafi gefið grænt ljós á þetta þar sem þetta snýr að þessu ári, ef ég hef skilið rétt.

Ef ég tók rétt eftir þá minntist ráðherrann á lækkun tryggingagjalds. Gjaldið var lækkað um 0,5% í tengslum við kjarasamninga. Í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar var talað um að auka hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldinu þannig að ráðstöfunarfé mundi aukast í samræmi við útgjaldaaukann sem fylgir hækkun á þakinu af því að greiðslurnar verða væntanlega með svipuðum hætti og kannski meiri eins og þær voru 2009. Ég tala nú ekki um ef einhverjar hugmyndir eru uppi um að lengja það, því að ítrekað hefur verið bent á að brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þannig að það er bara partur af hlutverki velferðarþjónustunnar að gera það, fyrir utan það að sjóðurinn er ekki mjög illa staddur akkúrat í augnablikinu. En ég tel að staðan sé vanmetin.

Hæstv. félagsmálaráðherra segir að staðið verði við áform fyrri ríkisstjórnar um uppbyggingu í húsnæðismálum. Það hleypur á milljörðum á næstu misserum.

Svo verð ég að koma inn á launaþróun öryrkja og eldri borgara af því að hér er talað um að lítið megi gerast þar. Það má ekki semja um launahækkanir umfram verðbólgumarkmið og framleiðnivöxt þjóðarbúsins, kemur fram hér. Við þekkjum öll ákallið hjá öryrkjum um betri kjör og líka jöfnun kjara eldri borgara, því að það komu bara fáir vel út úr því.

Hér var áðan verið að ræða notendastýrða persónulega aðstoð sem er ekki fjármögnuð. Ég hef því miklar efasemdir um að þau áform eins og hér var sagt áðan séu fjármögnuð í þessari áætlun, ég tala nú ekki um samgönguáætlun, en ég fæ símtöl og tölvupósta á hverjum einasta degi og oft á dag vegna þess.

Löggæslan. Sýslumennirnir eru undirfjármagnaðir. Það kom fram og var viðurkennt þegar við afgreiddum fjáraukalögin og lokafjárlögin voru til umræðu. Gæslan er ekki fullfjármögnuð, af því að hér minntist hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á að setja þyrfti að peninga í hana og ætti að fjármagna þá starfsemi vel. Þeir eru ekki hér til staðar, það er alveg klárt mál.

Ég er þess vegna mjög spennt að sjá þegar áætlunin kemur. Hún kemur vonandi — ja, ég veit ekki hvort ég á að segja fljótlega vegna þess að ég hef óskað eftir sérstakri umræðu við ráðherrann, ég vona að hún verði í næstu viku, um aðkomu einstaklinga og hvernig þeir eiga að bera sig að við að koma málum sínum á framfæri. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við finnum út úr því, því að kerfið var augljóslega ekki tilbúið, ekki einu sinni ráðuneytin eða aðrir þegar við vorum að reyna að keyra þetta mál í gegn í desember. Það var ekki bara vegna þess að það væri svo mikill hraði heldur var það hreinlega svo að kerfin voru ekki tilbúin. Þess vegna getum við tæplega ætlað þeim sem fjær standa að þeir standi klárir á því hvernig þeir eiga að bera sig að og hvernig þeir skuli nálgast þetta. Ég vona að við náum utan um það.

Virðulegi forseti. Maður talar á innsoginu hérna eins og aðrir því að þetta er svo stuttur tími. En ég mun eiga aðild að því að fjalla um þetta mál í fjárlaganefndinni. Það verður áhugavert. Fjármálaráð hefur hálfan mánuð til þess að fara yfir málið. Það verður bara áhugavert að sjá hvernig það kemur út og hvernig gestir sem við fáum í heimsókn bregðist við því.