146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:45]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta mál sem lagt er fram í síðara sinn, það var lagt fram í fyrra sinn í upphafi kjörtímabils. Ég þakka sömuleiðis hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir góðan fund í morgun um málið.

Búið er að reifa ýmislegt í ræðum í dag um efni þessarar ályktunar og hefur margt gott komið fram þar, bæði um það hversu skynsamleg og hversu óskynsamleg tillagan er eins og hún er sett fram. En mig langar frekar að einbeita mér að nokkrum öðrum atriðum og þá fyrst og fremst gagnrýni á það hvernig fjármálastefnan sjálf er skipulögð. Með fjármálastefnunni eru öll fjármál ríkisins bundin við hlutföll af vergri landsframleiðslu, sem samkvæmt ýmsum greiningum er fyrst og fremst mælikvarði á peningamagn í umferð frekar en raunverulegri framleiðslu eða þess háttar, sér í lagi vegna aukins ferðamannastraums sem hefur að jafnaði lítil áhrif á peningamagn í umferð í krónum talið.

Það hefur reynst hagfræðingum ansi erfitt að finna góða leið til þess að meta framlag ferðaþjónustu til vergrar landsframleiðslu. Þar af leiðandi hefur það ákveðin áhrif á heildarkerfið eins og það er sett fram. Það er mjög gott markmið út af fyrir sig að greiða niður ríkisskuldir og þess háttar, en það er mjög skrýtið að reikna það sem afgang sem þurfi að skila frekar en að taka sambærilega upphæð inn í fjárlög og láta þá vanefndir við þau skuldalækkunaráform teljast til halla í einhverjum skilningi en ofefndir, þ.e. það sem er umfram áætlun.

Það eru þessi tvö atriði sem mér finnast skrýtin í framsetningunni, annars vegar atriðið að negla allt niður við verga landsframleiðslu frekar en ákveðnar krónutölur, og svo hins vegar að gengið sé út frá því að skila tiltekinni aukaafkomu umfram núllið og nota það sem skuldalækkun frekar en að gera ráð fyrir ákveðinni skuldalækkun.

Mikið hefur verið rætt um að nota eigi allar óreglulegar greiðslur og einskiptisgreiðslur eða fjárstreymi í hraðari skuldaniðurfærslu, sem er svo sem ágætt. Það sem angrar mig helst varðandi það er að ekki hefur komið fram nein heildstæð áætlun um hvernig lækka eigi vaxtakostnað sem þrátt fyrir hlutfallslega lága skuldastöðu Íslands samanborið við Evrópusambandslönd hefur verið sá almesti á svæðinu. Við erum með töluvert hærri vaxtabyrði en t.d. Þýskaland ef við berum það saman. Þó er hún nú frekar há hjá þeim. Að því sögðu er frekar sorglegt að ríkisstjórnin skuli státa sig af því að lánshæfismat skuli vera upp á A- hjá Standard & Poor's, en við borgum 70 milljarða kr. á ári í vaxtakostnað. Það tvennt finnst mér ekki ganga alveg nógu vel saman í ljósi þess hvernig vaxtakostnaðurinn hefur verið að þróast undanfarin ár. Til að mynda voru skuldir í janúar 2014 1.447 milljarðar, eða 81,7% af vergri landsframleiðslu, og hrein skuld þá 885 milljarðar, eða um 50% af vergri landsframleiðslu. Vaxtagjöldin þá voru 75 milljarðar, en ef við berum það saman við stöðuna núna erum við með skuldir upp á 1.122 milljarða, sem eru 46,7% af vergri landsframleiðslu. Hrein skuld hefur lækkað niður í 755 milljarða, eða 31,4% af vergri landsframleiðslu, en við erum með vaxtagjöld upp á 70 milljarða.

Maður hefði haldið að hægt væri að ná fram töluvert meiri lækkun á vaxtagjöldunum miðað við þessa lækkun á skuldunum þó að það sé í ákveðnu hlutfallslegu samhengi, ekki síst vegna hækkandi eða batnandi lánshæfismats ríkissjóðs. Þarna er kjarni málsins vegna þess að vandamálið í ríkisfjármálum í augnablikinu er ekki bara skuldastaðan sem slík, þó svo að það sé vissulega mjög gott markmið að reyna að ná skuldum niður fyrir 30%, heldur sá að vextir eru almennt allt of háir á Íslandi. Það bitnar illa á ríkissjóði. Það bitnar illa á neytendum. Það bitnar illa á öllum þeim sem þurfa á fjármagni að halda. Fjármagnskostnaðurinn er hreinlega of hár.

Að vísu skal segja að í töluna fyrir janúar 2017, hreina skuld upp á 755 milljarða kr., vantar sennilega einhvern hluta niðurgreiðslu vegna stöðugleikaframlaga, sem ég veit ekki hvort búið er að fullreikna inn í. En það myndi í rauninni undirstrika enn frekar það sem ég er að segja, að það þarf samt að gera ráð fyrir 70 milljörðum kr. í vaxtagjöld á árinu.

Ég vona því að það komi heldur betur spennandi tillögur um vaxtalækkun frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem fyrst vegna þess að á þessu þarf að taka sem fyrst.

Annað sem hægt er að segja um fjármálastefnuna á þessu augnabliki er kannski fyrst og fremst að settar eru fram rosalega margar mjög skrýtnar forsendur. Ein forsendan sem ég hjó eftir í umræðu um málið og í því sem komið hefur fram er að gengið er út frá því að þróun einkaneyslu eigi eftir að fara minnkandi. En við sjáum að í febrúar á síðasta ári 2016 lagði Hagstofan fram spá um þróun einkaneyslu sem gerir ráð fyrir því að einkaneysla fari vaxandi árið 2017 og svo muni hún minnka niður í frekar lága tölu, mig minnir um 2,1%, í kringum árin 2020–2021. En í nóvember á síðasta ári kom ný spá frá Hagstofunni sem gerir ráð fyrir töluvert meiri einkaneyslu á árunum 2017–2018, en einhverra hluta vegna kemur út sama lokaspáin fyrir árin 2020–2021. Þetta þarf að útskýra töluvert betur ef gengið er út frá því að einkaneysla muni minnka með þessum hætti.

Ef forsendur í svona löguðu eru rangar eða byggðar á lélegum líkum er augljóst að niðurstaðan verður ekki góð. Það er kjarni málsins að það vantar að gera ráð fyrir meiri sveigjanleika en gert er ráð fyrir í fjármálastefnunni. Taka þarf betur tillit til óvissuþátta sem upp koma og þarf samhliða þessu að koma fram með miklu betri áætlun um hvernig laga skuli vaxtakostnað almennt og draga úr þeim rosalega kostnaði sem fylgir því að reyna að fjármagna einhver verkefni á Íslandi.