146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta eru nú svo stór mál þegar þingsályktunartillögurnar koma inn um ríkisfjármálaáætlun eða fjármálastefnu að í raun þyrftum við að huga að því í þingsköpunum að fyrir slíkar umræður væri gefinn rýmri tími en fyrir venjulegar þingsályktunartillögur, þegar ríkisfjármálin í heild sinni, ég tala nú ekki um stefnan til næstu fimma ára er undir, þá er ansi þröngt skorinn stakkur að hafa tíu mínútur.

Ritari Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tók hér til máls og var ákaflega glöð og stappaði stálinu í menn í leiðinni í því að fara að standa sig í einkavæðingunni og sölu ríkiseigna. Það er víðar gleðin í þeim herbúðum um þessar mundir, þeirra sem vilja minnka umsvif ríkisins og færa einkagróðaöflunum sem mest til að maula á. Verslunarráð er að vakna til lífsins. Núna er gaman. Nú er svolítið komið 2007 aftur. Íhaldsstjórn, hægri stjórn og þá stendur ekki á tillögunum þaðan um hvað eigi að gera. Selja allar fasteignir ríkisins. Gera ríkið að allsherjarleiguliða. Hverjir ætli kaupi? Ætli það verði almenningur? Nei, ætli það verði ekki fínu, nýju fasteignafélögin, nýju gróðamaskínurnar, hvað þær heita allar saman, Reitir og Heimavellir, þar sem fjármagnið er að leita sér að nýrri aðferð til að skammta sér ríflegan gróða, og að mínu mati eitt það hættulegasta sem hefur gerst á fasteignamarkaði á Íslandi í áratugi. Er þá mikið sagt eins og ástandið er þar. Ætli það verði þá ekki ráð, segir Verslunarráð, að bæta öllu opinberu húsnæði í viðbót inn á markaðinn og ríkið yrði leigjandi. Hver er reynsla Alþingis af því, frú forseti, að vera leigjandi í miðborginni? Hvernig hefur það gengið að borga svimandi háa leigu fyrir skrifstofuhúsnæðið í kringum þingið, á uppspenntum markaði hér í Kvosinni og húsnæðið í alls konar ástandi eins og kunnugt er? Nei, ég ætla að vona að menn staldri aðeins við í þeim efnum þrátt fyrir gleði sína.

Formaður okkar Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, fór vel yfir þetta í byrjun fyrir okkar hönd og þá fyrirvara sem við höfum haft á um þessa nálgun og ég tel að séu mikilvægir og mikilvægt sé að ræða þetta sem grundvallarmál í stjórnmálum, því að þetta tengist beint inn í sjálfan kjarna pólitískrar umræðu um samfélagsgerðina sem við viljum búa í. Það eru auðvitað mínimalistarnir sem vilja sem allra minnst í opinberum höndum og sem allra mest í höndum einkagróðaaflanna og svo aðrir sem vilja annars konar samfélagsmódel, sem vilja trausta tekjuöflun í þágu vel rekins samábyrgs velferðarsamfélags sem tryggi mönnum velferð og velsæld í gegnum það.

Nú er að sjálfsögðu gott að menn séu ábyrgir í sinni fjármálastefnu og það er alveg sérstaklega mikilvægt þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við völd, því að hann hefur eins og kunnugt er borið ábyrgð á því að klúðra efnahagsmálum Íslendinga umfram nokkurn annan stjórnmálaflokk í lýðveldissögunni. Það liggur bara fyrir. Ættingjar hans í Viðreisn og annars staðar þurfa líka að passa sig að þeir séu ekki með eitthvað af veiðinni í sér.

Ég fagna því í sjálfu sér og mér líður betur sem vinstri manni sem vill ábyrg ríkisfjármál — ég vil ekki að menn eyðileggi þau reglubundið með hruni eða einhverju öðru og aðrir þurfi svo að hafa fyrir því að vinna þau upp aftur — að ábyrgð sé lögð til grundvallar. Það er gott. Það er líka mikilvægt að greiða niður skuldir, að sjálfsögðu.

En við þurfum auðvitað alltaf að ræða hvað eigi að vera í forgangi á hverjum tíma, þar á meðal það: Á það að vera svo fortakslaust áhersluatriði að greiða niður hinar bókfærðu skuldir ríkisins, hinar peningalegu skuldir ríkisins, að við söfnum skuldum annars staðar? Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt. Ég held að við séum að gera stórfelld mistök í því núna og stefnum í að gera, sérstaklega næstu árin miðað við þessar áherslur, að safna skuldunum annars staðar, greiða niður hinar sýnilegu bókfærðu skuldir, peningalegu skuldir í bókum ríkisins, en safna þeim annars staðar í grotnandi innviðum og í ómættum þörfum sem blasa við okkur á næstu árum.

Tvennt blasir þar alveg sérstaklega við. Vegakerfið í landinu er að eyðileggjast. Við erum ekki að undirbúa okkur undir þá sprengju sem er í vændum varðandi þörf fyrir umönnun aldraðra. Við þurfum þúsundir hjúkrunarrýma á næstu 10–15 árum og sprengjan kemur þar inn upp úr 2020, segir greining velferðarráðuneytisins. Er þá ekki skynsamlegt að fara að huga að því? Er það ekki skuld líka hjá ríkinu ef við vanrækjum algjörlega, ekki bara að byggja upp innviðina í þágu framtíðar- og nútíðarþarfa, heldur jafnvel að halda þeim við? Við erum svo neðarlega með þá hluti að það er að valda þjóðhagslegu tjóni. Það er einfaldast að sýna þetta og sanna í vegakerfinu. Það sem gerist ef viðhald og umhirða vegakerfisins fer niður fyrir ákveðið stig þá byrja vegirnir bókstaflega að skemmast, eins og hús sem er látið leka árum saman án þess að laga lekann. Það er það sem er að gerast í stórum stíl, t.d. á þjóðvegi 1. Það verður mun dýrara og ráðast þarf fyrr meira og minna í endurbyggingu hans alls vegna þess hvað viðhaldið er lítið og hann þolir ekki þungaflutningana sem eru á veginum í dag.

Ég tel að greina þurfi það þjóðhagslega og gott ef sú nefnd sem fær málið til sín fari aðeins yfir það. Þarna þarf að finna eitthvert jafnvægi. Já, við viljum að sjálfsögðu öll sjá skuldir ríkisins lækka sem hraðast þannig að vaxtakostnaðurinn minnki, en það er líka skuld að vanrækja augljóslega það sem ríkið, vonandi er samstaða um það, þarf að sjá um og á að sjá um, eins og að innviðir landsins séu í lagi.

Ég hef líka miklar efasemdir um þann stífa ramma sem hér er lagður vegna þess að ég held að við séum ekki að skapa þar svigrúm til þess að takast á við hluti sem bíða okkar eins og allra annarra, og þeir eru að banka upp á hjá okkur núna af vaxandi þunga, þ.e. breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og þörfin fyrir að leggja meira inn í heilbrigðismál og málefni aldraðra. Nýlega er búið að skrifa undir það að við eigum að stefna að því að koma útgjöldum til heilbrigðismála í 11% af vergri landsframleiðslu, með öðrum orðum að hækka um sirka 2–2,5% framlögin til heilbrigðismála miðað við verga landsframleiðslu. Það eru talsverðar tölur. Við ætlum væntanlega að láta ríkið taka á sig þá hækkun, því að menn vilja á sama tíma, ef eitthvað er, draga úr kostnaði sjúklinga í kerfinu enda er hann mikill. Er svigrúm fyrir það á næstu árum? Nei, það sé ég ekki. Á sama tíma þurfum við að takast á við ýmiss konar framfarir í heilbrigðisþjónustunni, læknavísindunum, nýjum lyfjum, nýjum tækjum og tólum sem er krefjandi verkefni og hefur verið að leiða til þess á undanförnum árum hjá flestum samanburðarþjóðum okkar að hlutfall heilbrigðisútgjalda af vergri landsframleiðslu er að hækka.

Hvar getur eitthvað annað gefið eftir á móti ef við erum ekki tilbúin að setja neitt nýtt fé inn í kerfið og bara hagsveiflan svokallaða á að fjármagna þetta? Vill einhver benda mér á þau svið? Er það í menntamálum, menntun, rannsóknum og þróun? Nei, varla. Við þurfum helst að auka það til að ná upp í meðaltal OECD og svo Norðurlandanna. Er það ekki það sem við viljum gera? Er það í löggæslunni? Er það í rekstri sýslumannsembættanna? Nei, veruleikinn er sá að við eigum enn eftir að vinna upp slaka á mörgum sviðum frá aðhaldsárunum eftir hrun. Aðilar koma til okkar og segja: Við erum 8% lægri í raunverulegum fjárveitingum til að veita okkar þjónustu þrátt fyrir aukinn fjölda ferðamanna, þrátt fyrir fjölgun landsmanna, en við vorum 2006, 2008. Færri lögreglumenn eru á vakt á Akureyri í dag en voru um aldamótin o.s.frv.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er með 9% minni fjárveitingar til að veita þjónustu sína á höfuðborgarsvæðinu en hún var með 2008. Þegar búið er að taka tillit til launabreytinga þá hefur reksturinn sjálfur verið með 9% minni fjárveitingar. Þarna er slaki sem við eigum eftir að vinna upp. Heldur einhver því fram að lagt hafi verið of mikið í þetta á sínum tíma? Ég held ekki. Við þekkjum þær þrengingar sem menn eru þar búnir að ganga í gegnum.

Ég held því fram að mikil mistök hafi verið gerð í hagstjórn og ríkisfjármálum á síðasta kjörtímabili, sorgleg mistök, með því að afsala jafn miklum tekjum úr ríkissjóði og gert var. Tvennt hefði átt að gera fyrr. Annars vegar að færa eitthvað af þeim tekjustofnum yfir til sveitarfélaga því að afkoma sveitarfélaga er ekki nógu góð og stefnir ekki í að verða nógu góð næstu fimm árin samkvæmt þessari fjármálastefnu. Þau eiga í raun og veru að halda sjó. Hins vegar hefðum við átt að halda inni einhverju af þessum tekjum. Við gátum gert sirka þrennt við það; bætt aðeins betur í innviðina, greitt niður skuldir fyrir þær skatttekjur og við hefðum getað gert fleiri góða hluti við þær.

Ég er því ekki sannfærður um að við séum að hitta á rétta jafnvægið í þessu þótt ýmislegt sé ágætlega gert. Hér er skotið inn (Forseti hringir.) í raun glænýjum hlutum, pólitískum markmiðum sem hafa ekkert með lögin um opinber fjármál að gera, eins og það að setja bara absalútt þak á umfang samneyslunnar í landinu. Sagt er að það eigi að vera 41,5% (Forseti hringir.) af vergri landsframleiðslu, hin opinbera, en í reynd er í textunum talað um að það eigi að vera lægra. Þetta er algjört nýmæli og hefur ekkert með lögin að gera. Þetta er pólitísk yfirlýsing þessarar ríkisstjórnar. Hún vill svona hafa bönd á sjálfri sér (Forseti hringir.) að samneyslan vaxi örugglega ekki úr því sem nú er og helst lækki.