146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað á undan. Fyrir hrun gættu menn þess kannski fyrst og fremst að stíga ekki yfir einhvern lagalegan þröskuld og skeyttu minna um siðferðisspurningar. Þetta varð svo til þess að traustið hrundi og almenningur heimtaði siðbót og ný stjórnmál í landinu. Það hvílir ekki síst á herðum okkar stjórnmálamanna að rísa undir þeirri ábyrgð. Það er ömurlegt að núverandi forsætisráðherra hafi leynt tveimur mikilvægum skýrslum í aðdraganda kosninga. Önnur varpaði ljósi á vafasama hegðun manna og hin afhjúpaði óskynsamlega ráðstöfun fjármuna ríkisins.

Hæstv. forsætisráðherra hefur neitað að mæta fyrir þingnefnd, hann er ekki hér til staðar við óundirbúnar fyrirspurnir og því hlýt ég að spyrja, frú forseti: Hvernig ætlar forseti að leitast við að auka virðingu Alþingis þegar svona vinnubrögð eru látin óátalin?