146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa komið og lýst yfir vonbrigðum yfir þeim vinnubrögðum sem hafa greinilega verið stunduð í hæstv. fjármálaráðuneyti og af hæstv. forsætisráðherra. Það er lykilskylda ráðamanna og hæstv. ráðherra að gefa þinginu sannar og réttar upplýsingar þegar við á. Það hlýtur að teljast mikið trúnaðarbrot ef upp hefur komist að núverandi hæstv. forsætisráðherra hafi í raun og veru notað sér aðstöðu sína til að fresta birtingu skýrslu sem var svo gott sem tilbúin vegna þess að hann vildi ekki gera þetta að kosningamálefni út af kosningum sem voru m.a. um þau lykilatriði sem skýrslan fjallar um. Að sjálfsögðu er þetta, virðulegi forseti, alvarlegur trúnaðarbrestur milli þingsins og hæstv. forsætisráðherra.