146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Í 50. gr. laga um þingsköp er einmitt talað um sannleiksskyldu eða upplýsingaskyldu ráðherra við þingið, í kaflanum um eftirlitsstörf þingsins. Við eigum að geta haft eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Hvernig er þetta útlistað í lögum? Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun um þingmál, við sérstakar umræður, í svörum við fyrirspurnum þingmanna og í skýrslum, hvort sem er að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingmanna, svo og við athugun mála að frumkvæði fastanefnda þingsins, skal ráðherra leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu.“

Hann hafði aðgang að skýrslu sem bæði hann sjálfur hafði kallað eftir að eigin frumkvæði eftir að hafa rætt við þingnefnd og þingmenn höfðu kallað eftir. Þetta er í lögum en það eru bara ekki viðurlög við að brjóta þau. Það er einmitt það sem þingmál Pírata sem verður flutt á eftir í þriðja sinn gengur út á, frumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra, að svona lagað varði lög og ráðherraábyrgð, að ráðherra geti ekki bara ákveðið upp á sitt eindæmi að hann ætli bara að leyna þingið upplýsingum sem varða mál þingsins, (Forseti hringir.) ætli ekki að fara satt og rétt með heldur gefa rangar eða villandi upplýsingar. Það ætti að vera í lögum að ef slíkt er gert, ef menn verða staðnir að gáleysi, alvarlegu hirðuleysi eða ásetningi, varði það ráðherraábyrgð. Annars getur þingið ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu.

Hvað getur forseti gert núna? Hann getur ávítað eða kallað eftir að forsætisráðherra svari einhverju. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)