146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í þessa umræðu. Hér er verið að ræða skuldaniðurfellinguna. Ég og minn flokkur, Björt framtíð, vorum algerlega á móti henni og í reynd einn flokka á þingi sem greiddi atkvæði gegn henni í fyrstu atkvæðagreiðslu þá um fjárlög. Svo reyndar bættust fleiri við.

Það er kallað eftir því að upplýst sé nákvæmlega um það hvernig þessu stærsta kosningaloforði hafi verið útdeilt. Það væri gott að fá þá skýrslu inn. Ég kalla líka eftir henni. En hér láta þingmenn eins og þeir hafa bara ekkert vitað hvernig þetta myndi koma út. Það lá alveg fyrir að þeir sem áttu mest skulduðu líka mest. Þannig fengu þeir mest. Það lá líka fyrir að landsbyggðin fékk mun minna en fólk á höfuðborgarsvæðinu því að þar eru fasteignir ódýrari. Þetta lá fyrir, fyrir síðustu kosningar, fyrir kosningar (Forseti hringir.) 2013. Þannig að ég spyr: Hvað er það sem þingmenn stjórnarandstöðunnar, núverandi og fyrrverandi, vissu ekki um þetta mál? Þingmenn Bjartrar framtíðar voru með þetta algerlega á hreinu. (SSv: ... að henda skýrslunni?)