146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ef einhver hefði sagt mér það fyrir kosningar að örfáum mánuðum eftir þær myndi ég standa hér í pontu til að ræða þá staðreynd að þáverandi hæstv. fjármálaráðherra hefði vísvitandi leynt þingið og þar með almenning skýrslum hefði ég talið að viðkomandi væri galinn sem segði slíkt.

Í alvöru talað, krakkar, þetta er þyngra en tárum taki að við séum að ræða þessi mál og það er enn þyngra en tárum taki að hæstv. umhverfisráðherra skuli ekki átta sig á því um hvað málið snýst, að reyna að slá sig til riddara: Ég ein og minn flokkur einn, við sáum þetta nú allt saman. (Gripið fram í.) Hvað eruð þið að biðja um einhverja skýrslu? (Gripið fram í.)

Málið snýst um það að alþingismenn báðu framkvæmdarvaldið um skýrslu hæstv. þáverandi fjármálaráðherra. Hann vann þær skýrslur, sat svo á niðurstöðum þeirra fram yfir kosningar. Það er ekki í anda þeirra margboðuðu bættu vinnubragða sem hæstv. umhverfisráðherra hefur talað fyrir, greinilega holum hljómi, að hæstv. ráðherra standi svo hér og láti eins og þetta snúist bara um efni skýrslunnar og innihald. (Forseti hringir.) Hvers lags eiginlega (Gripið fram í: Fúsk.) fúsk er þetta? Takk fyrir orðið.