146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er grafalvarlegt mál og við getum ekki talað um að ráðherra sé í annað sinn að gleyma einhverju. Þetta er augljós ásetningur og ég ætla að vona að umboðsmaður taki þetta mál ásamt hinu og horfi á þau í heildarsamhengi. Það er ekki ásættanlegt að ráðherra á hverjum tíma geti ákveðið hvort og hvenær hann birti einhverja skýrslu. Við þurfum að gera verklagið þannig úr garði að um leið og nefndir skila af sér sé ráðherra skylt að láta vita af því og hafa til þess einhvern tiltekinn frest kjósi hann að bregðast við með einhverjum hætti.

Ég verð líka að undrast orð hæstv. umhverfisráðherra hér áðan. Tveir fyrrverandi þingmenn Bjartrar framtíðar voru á þessari skýrslubeiðni, (Gripið fram í.) fyrrverandi hv. þm. Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir. Þetta voru spurningar sem þurfti að fá svör við og áttu að vera komin fyrir langalöngu. Það er til háborinnar skammar fyrir þingið hversu löngu seinna hér er verið að svara og ekki einu sinni nema að hluta. (Forseti hringir.) Spurningunum hefur aldrei öllum verið svarað.

Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að þetta bendi ekki til þess að hæstv. umhverfisráðherra telji að svona sé í lagi, að setja ofan í skúffu (Forseti hringir.) þegar skýrslubeiðnir berast inn á hennar borð, bara af því að innihaldið var eins og það var.