146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mikið skelfing er dapurlegt að hlusta á hæstv. umhverfisráðherra, þingmann Bjartrar framtíðar, verja fúskið. Það er svo dapurlegt. Ég gagnrýni Bjarta framtíð meira en aðra flokka af því að ég hafði ákveðna trú á Bjartri framtíð. Ég trúði því þegar Björt framtíð hélt því fram að hún vildi bætta stjórnsýslu. Það sem hæstv. ráðherra ver hér er ekki verjandi. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra getur talað hér í pontu eftir smástund.

Mig langar líka að ítreka að ef það er svo, og manni bregður við þessum valdhroka um að við eigum bara öll að vita allt og Björt framtíð viti allt og þess vegna þurfum við ekki neinar skýrslur þrátt fyrir að það voru tveir þingmenn Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili sem báðu um þessa skýrslu.

Mikið hefði verið gagnlegt ef hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) hefði þá útskýrt fyrir félögum sínum að það væri óþarfi að vera með á þessari skýrslu sem greinilega var óþörf.