146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:55]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ef einhverjum hv. þingmanni þykir það sárt að heyra að þetta hafi verið fyrirséð, þessi niðurstaða skýrslunnar á ég við, þá verð ég bara að taka það á mig. En það var alveg ljóst hjá okkur þingmönnum Bjartrar framtíðar enda vorum við á móti málinu, við vorum á móti skuldaleiðréttingunni. Það var ljóst hvernig þessi skipting væri einfaldlega af því að eftir því sem maður getur keypt stærra húsnæði þá á maður meira, þá getur þú skuldað meira, annars færðu ekki greiðslumat og þar af leiðandi, eins og dæmið var lagt upp hjá fyrrverandi ríkisstjórn, fékkstu meira út. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei, og gerði það ekki áðan hér uppi í pontu, mælt því bót að skýrslur komi ekki inn á réttum tíma þannig að ég vil bara frábiðja mér að hv. þingmenn væni mig um það.