146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim orðum hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér að koma umræðu um þessi mál í farveg og ég treysti því að við fáum liðsinni hans til að fá hæstv. forsætisráðherra hér í sal svo við getum rætt þessi mál, bæði efni umræddra skýrslna og þá staðreynd að niðurstöðu þeirra hafi verið leynt fram yfir kosningar.

Mig langar líka að taka undir orð hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég skora á hæstv. núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutann að leggja sitt af mörkum til að efla sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég skora á þá hæstv. ráðherra sem núna hafa skipt um stóla en sátu áður sem almennir þingmenn og jafnvel í stjórnarandstöðu að gleyma ekki uppruna sínum og þeim aðstæðum sem þeir bjuggu við (Forseti hringir.) og hjálpa okkur til að efla sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu þannig að þingið sjálft geti jafnvel unnið svona skýrslu eins og hér er til umræðu.