146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

yfirlýsingar Bandaríkjaforseta og framtíð NATO.

[14:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú taka fram að gefnu tilefni að við eigum okkur sögu, ég og hv. þm. Logi Einarsson, vorum saman í menntaskóla. Ég er mjög glaður að heyra áherslu hv. þingmanns á mikilvægi Atlantshafsbandalagsins. Það er svolítið öðruvísi en mér áður brá. Ég skal nú viðurkenna að þetta var á árunum 1983–1987. Þannig að það er vel.

Ég kannast ekki við að vera í einhverjum samtökum sem eru með sambærilegar áherslur og hv. þingmaður er að vísa í enda eru þau ekki þess eðlis að menn séu að samræma áherslur eða stefnur hvað það varðar. En við getum alveg rætt þau mál seinna.

Atlantshafsbandalagið er náttúrlega miklu stærra en einstakir stjórnmálamenn og þjóðarleiðtogar og byggir á traustum grunni. Ef aðildarþjóðirnar ætla að breyta út frá því eða breyta stefnu sinni hvað það varðar þá þarf í tilfelli Bandaríkjanna meira en einn forseta þótt hann sé auðvitað mjög valdamikill. Þess vegna var ég að vísa til þess að miðað við þau skilaboð sem við höfum séð í erlendum fjölmiðlum er ekki að vænta stórra breytinga.