146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

mengun frá kísilverum.

[14:21]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Herra forseti. Að utan og heim, þótt það sé nú ekki fullrætt málið sem rætt var hér á undan. Öll þekkjum við fréttir af því hvernig hrákísilver United Silicon, sem hóf starfsemi sína síðastliðið haust, hefur dælt mengun yfir nærliggjandi íbúabyggð í Reykjanesbæ. Lýsingar margra íbúa á menguninni og þeim ama sem mengun frá verksmiðjunni hefur valdið þeim eru óþægilegar og í raun ótrúlegar. Þetta er ólíkt því sem við eigum að venjast.

Þarna er um að ræða mengun frá einum ofni af fjórum fyrirhuguðum, en samanlagt eiga þeir að annast framleiðslu á 100 þúsund tonnum af hrákísli á ársgrundvelli. Í því ljósi er enn ótrúlegra að til standi að reisa annað hrákísilver við hliðina á vegum Thorsil. Ekki er nóg með það heldur er því ætlað að framleiða annað eins af hrákísli, 110 þúsund tonn á ári.

Eðlilega hafa íbúar áhyggjur af því að með nýju hrákísilveri muni mengun á svæðinu aukast verulega umfram það sem fyrir er.

Umhverfisstofnun er nú með til afgreiðslu starfsleyfi fyrir hrákísilver Thorsil í Helguvík og alls bárust stofnuninni um 40 umsagnir frá íbúum og hagsmunaaðilum í nágrenni við Helguvík sem leggjast gegn því að hrákísilver Thorsil fái starfsleyfi. Að auki hafa meira en 3.500 manns skrifað undir áskorun um að starfsleyfið verði ekki veitt.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að bæði hún og ríkisstjórnin hafa lýst yfir andstöðu við frekari uppbyggingu mengandi stóriðju á Íslandi: Ætlar ráðherra að beita sér gegn því að hrákísilver Thorsil í Helguvík verði veitt starfsleyfi? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að koma til móts við íbúa í Reykjanesbæ sem sætta sig ekki við mengandi stóriðju í bakgarðinum hjá sér?