146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

sjómannaverkfallið.

[14:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Já, ég deili áhyggjum hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur af þeim víðtæku áhrifum sem verkfall sjómanna hefur á íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf. Við erum ekki eingöngu að tala um fiskiskipin og fiskvinnsluna sem slíka sem ég hef miklar áhyggjur af, fiskverkunarfólkið, heldur ekki síður þau afleiddu störf sem við höfum sem betur fer séð spretta upp í gegnum nýsköpun, nýjan markað o.s.frv. Verkfallið hefur víðtæk áhrif á sveitarfélögin, bæði á landsbyggðinni en líka í þéttbýlinu, og á fólk sem hefur menntað sig til þess að efla og styðja við sjávarútveginn.

Þetta eru fjórar spurningar sem hv. þingmaður spyr mig um. Höfum við metið hvaða áhrif þetta hefur á sveitarfélögin? Við erum ekki farin af stað með formlega vinnu en við höfum rætt það innan okkar raða hvernig og hvort við getum komið með einhverjar mótvægisaðgerðir. En eins og hv. þingmaður veit eflaust eru byggðamálin m.a. farin, því miður, úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en þetta er eðlilega samstarf á milli þeirra ráðuneyta sem um þessi mál fjalla ásamt samtali við sveitarfélögin. Það er alveg ljóst að við munum skoða hver áhrif verkfallsins verða, ekki síst á hinar dreifðu byggðir landsins þar sem atvinnulífið er fábrotnara en á suðvesturhorninu. Við þurfum einfaldlega að horfast í augu við það og skoða hvað hægt er að gera til þess að styðja við sveitarfélögin.

En ég vil undirstrika það sem ég hef sagt og tel varhugavert að gera, því að hv. þingmaður spyr hvort það eigi að liðka til: Er hv. þingmaður þá að tala um að við eigum að koma inn í deiluna með einhverjum sértækum aðgerðum? Ef hv. þingmaður er að tala um það segi ég nei. Ef hv. þingmaður er að tala um að setja lög á sjómannaverkfallið segi ég aftur skýrt nei. Til lengri tíma, líka skemmri, er mikilvægt að ríkisvaldið sendi skýr skilaboð til deiluaðila á vinnumarkaði. Það er þeirra að sjá um þetta verkfall, það sem við getum í raun einkum (Forseti hringir.) gert er að hvetja menn til dáða, láta fólk axla ábyrgð í því að leysa kjaradeilur. Ég held að það sé fortíðarmál (Forseti hringir.) að láta ríkið koma inn í þetta eins og staðan er í dag.