146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

sjómannaverkfallið.

[14:32]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði hins vegar viljað fá aðeins skýrari svör. Það veldur mér talsverðum vonbrigðum að ráðuneytið sé ekki komið lengra í því að meta umfang þessa stóra máls, hvaða áhrif það muni hafa á þessi byggðarlög og hvaða þjóðhagslegu áhrif sjómannaverkfallið hefur á okkur.

Ég hefði haldið að það væri algert forgangsmál hjá hæstv. ráðherra að fara í þetta mál og koma með aðeins skýrari svör í þingið. Verkfallið hefur nú staðið yfir í einn og hálfan mánuð. Ég er mjög hissa á að stefnan sé ekki skýrari og að ekki sé búið að vinna meira í þessu máli. Það kemur mér verulega á óvart.

Við vitum að gjaldeyristekjurnar frá sjávarútvegi eru afskaplega miklar. Fyrir mörg byggðarlög er það lífsspursmál að þetta verkfall leysist. Ég hefði því haldið að ráðherrann væri betur undirbúin að svara þessu en með þeim svörum sem við höfum fengið hér í dag.