146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[14:34]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skjót viðbrögð og að hafa séð sér fært að taka þátt í þessari sérstöku umræðu í dag. Það er mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga fái að ræða þau viðbrögð sem okkur þykja viðeigandi við þeim atburðum sem átt hafa sér stað í bandarískum stjórnmálum undanfarið.

Embættistaka Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna hefur svo sannarlega valdið titringi í alþjóðasamfélaginu. Á sinni fyrstu viku í embætti hefur hann fyrirskipað töluvert af umdeildum tilskipunum, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, um ýmislegt sem varðar alþjóðahagsmuni, ekki síst sem varðar mannréttindi, viðskiptasamninga og alþjóðaskuldbindingar aðrar sem Ísland er m.a. aðili að.

Mig langar til að beina sjónum mínum að umhverfismálum og stefnu Bandaríkjanna og hvaða áhrif niðurskurður á Umhverfisstofnun Bandaríkjanna muni hafa á þær loftslagsskuldbindingar sem Ísland er m.a. aðili að, en Donald Trump hefur fyrirskipað að fjármagn til stofnunarinnar skuli vera skorið við nögl. Loftslagsmálin eru eitt af stærstu málefnum 21. aldarinnar.

Þegar forsetinn hefur látið í ljósi skoðun sína, þ.e. að hann hefur ekki áhuga á að framfylgja því, hver verða viðbrögð Íslands? Hver verða viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra varðandi þetta?

Ég tel þetta vera eitt af því mikilvægasta sem 21. öldin þarf að glíma við.

Í öðru lagi langar mig til að ræða svolítið um einangrunarhyggjuna sem við sjáum í Bandaríkjunum. Donald Trump er byrjaður að tala um múr á landamærum Mexíkós. Við höfum rætt um bann gagnvart innflytjendum, svo gott sem inngöngubann ákveðinna ríkisborgara, þeirra sem fæddir eru í ákveðnum löndum. Ég tel það alveg einstaklega varhugavert. Það er mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld fordæmi þá tilskipun sem varðar flóttafólk, að flóttafólki sé ekki hleypt inn í landið, m.a. fólki frá Sýrlandi, og að innflytjendum sem eru jafnvel með græna kortið, jafnvel búnir að búa lengi í Bandaríkjunum, eru jafnvel íslenskir ríkisborgarar, eins og rætt var hér í gær, sé ekki hleypt inn í landið.

Það er eitt grundvallaratriði mannréttindalaga að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og að það megi ekki mismuna á grundvelli þjóðernis, uppruna, sem er mjög mikilvægt í þessu samhengi, eða trúarbragða.

Mig langar að fá skýrari viðbrögð frá hæstv. ráðherra: Hvernig mun hann beita sér fyrir því að mannréttindi séu virt á þessum vettvangi?

Þessar fimm mínútur eru alveg gífurlega fljótar að líða, en mig langar til þess að beina sjónum að kvenréttindum í Bandaríkjunum. Utanríkisstefna Íslands út á við verið hefur mjög miðuð að kvenréttindum, kvenfrelsi, þátttöku kvenna í stjórnmálum og valdeflingu kvenna. Fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hóf t.d. Barbershop-verkefnið, og fleira í þeim dúr. Verið að skera alveg gífurlega mikið niður í heilbrigðisþjónustu sem snýr að konum. Þá á ég sérstaklega við aðgengi að fóstureyðingum, ekki bara innan Bandaríkjanna, sem er mjög alvarlegt mál, heldur líka í þróunarlöndunum.

Við horfum upp á mjög alvarlega þróun að mínu mati. Mig langar þá til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann muni reyna að ræða það mál alveg sérstaklega þegar hann talar við bandarísk stjórnvöld, vegna þess að ég tel það vera eitt lykilatriðið í lýðræðissamfélagi að réttindi kvenna séu tryggð.

Sömuleiðis þarf að ræða um pyndingar. Donald Trump hefur víst áhuga á því að hefja pyndingar á ný. Hvernig mun það samræmast íslenskum gildum eða þeim alþjóðaskuldbindingum sem við erum aðilar að? Ég hefði getað haft þetta miklu lengra en því miður komst ekki allt að. Ég vonast til þess að umræðan verði góð og að fleira muni koma í ljós. Það er ljóst að Ísland þarf að (Forseti hringir.) tala mjög skýrt um að ákveðin hegðun í alþjóðasamfélaginu er ekki í lagi, sér í lagi þegar kemur að skertum mannréttindum, grundvallarmannréttindum, þegar kemur að pyndingum, þegar kemur að skertum kvenréttindum og ekki síst þegar kemur að loftslagsmálum.