146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[14:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hryggjarstykkið í íslenskri utanríkisstefnu er og hefur ávallt verið virðing fyrir mannréttindum, lýðræði og leikreglum réttarríkisins. Þessar grundvallarforsendur kristallast í því sem við köllum einfaldlega frelsi; frelsi til æðis og frelsi til athafna. Þetta eru þau gildi sem Ísland boðar á alþjóðavettvangi og þetta eru þau gildi sem við höfum deilt með vinum okkar og nánustu bandamönnum í vestri allt frá lýðveldisstofnun. Bandaríkin hafa ætíð verið leiðandi afl á þeim sviðum og höfum við og aðrar frjálsar lýðræðisþjóðir horft til Bandaríkjanna sem fyrirmyndar. Lykilstofnanir í alþjóðasamfélaginu standa vörð um þessi gildi og samband Íslands og Bandaríkjanna hefur ávallt staðið á þeim trausta grunni.

Í kveðjuávarpi Ronalds Reagans, fyrrum Bandaríkjaforseta, árið 1989 vitnaði hann í orð 16. aldar frelsisberans Johns Winthrops þegar hann ræddi um leiðarljós sitt um borgina á hæðinni, samfélag stoltra íbúa, hvaðanæva að sem byggja á kletti sem aldrei molnaði eða veðraðist þrátt fyrir ágjöf og áskoranir. Reagan sagði klettaborgina enn vera á sínum trausta stað og að enn laðaði hún til sín kyndilbera frelsis sem fundu þar sitt heimili. Þetta er lýsing á Bandaríkjunum sem við þekkjum.

Nú eru komnir nýir valdhafar í Hvíta húsið í Washington. Ísland mun að sjálfsögðu leitast við að eiga sem best samskipti við ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Sú hugsun að „vinur er sá er til vamms segir“ kemur fram í speki Hávamála, og á Íslandi er ríkisstjórn sem segir einfaldlega: Við gerum meiri kröfur til Bandaríkjanna en annarra þegar kemur að frelsi og mannréttindum. Tilskipun Bandaríkjaforseta og framkvæmd hennar nú um helgina eru gríðarleg vonbrigði. Bandaríkin hafa sveigt af leið. Það er ábyrgðarhluti að halda áfram á þeirri vegferð.

Forseti. Sameiginlegir hagsmunir okkar og Bandaríkjanna eru víðfeðmir og lúta að öryggismálum, norðurslóðum, loftslagsmálum og viðskiptum. En undirstaða alls þessa eru mannréttindi. Ég vil undirstrika að um leið og við gætum þess að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart nýjum valdhöfum í Bandaríkjunum gætum við þess jafnframt að standa vörð um þau gildi sem hafa leitt okkar þjóðir saman í gegnum áratugina.

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við landgöngu og móttöku flóttamanna frá tilteknum ríkjum hafa verið skýr og yfirveguð og þau hafa verið í samræmi við viðbrögð á Norðurlöndunum og víðs vegar í Evrópu. Ríkisstjórn Íslands harmar þessa tilskipun og lýsir yfir þungum áhyggjum af því hvaða afleiðingar hún kunni að hafa bæði í alþjóðlegu samhengi og eins hvað séríslenska hagsmuni varðar. Ljóst er að Bandaríkin hafa ætíð og framar flestum öðrum tekið opnum örmum á móti innflytjendum sem hafa aftur mótað samfélagsgerðina þar í landi. Þessi tilskipun skýtur því skökku við.

Nýjum valdhöfum í Bandaríkjunum er annt um öryggi borgara sinna. Öryggissjónarmið skipta vissulega mjög miklu máli og ríki heims eru almennt, því miður, sammála um að hryðjuverkaógnin á Vesturlöndum fari vaxandi. En að loka landamærum fyrir fólki sem er á flótta undan stríði og gera upp á milli fólks á grundvelli þjóðernis eða trúar er kolröng leið og gefur röng skilaboð.

Fyrr í dag kom ég afstöðu okkar á framfæri við bandarísk stjórnvöld á fundi sem ég átti með Benjamin Ziff, aðstoðarráðherra úr utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, auk staðgengils sendiherra Bandaríkjanna hér á landi. Þar lýsti ég þungum áhyggju mínum af þessu máli og því að Bandaríkin væru að sveigja af leið umburðarlyndis og jafnréttis.

Virðulegi forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að nefna annað mál sem valdið hefur miklum vonbrigðum og tengist annarri tilskipun Bandaríkjaforseta sem kveður á um að ekki megi veita fé til samtaka eða stofnana sem með einhverjum hætti veita upplýsingar um fóstureyðingar eða veita aðgang að öruggum fóstureyðingum erlendis. Hér er um að ræða mikilvægt mannréttindamál og snýr ekki síst að rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Tilskipun Bandaríkjaforseta sætir því furðu og kom ég á framfæri mótmælum mínum við aðstoðarráðherra Bandaríkjanna vegna þess máls.

Virðulegi forseti. Við lifum á tíðindamiklum tímum. Hvort sem er litið til vesturs, austurs, til Evrópu eða til nýmarkaðsríkja í Austurlöndum fjær eru áskoranirnar fjölmargar. Það eru að vissu leyti breyttar aðstæður á vettvangi alþjóðastjórnmála. Þess sjáum við glögg merki í Bandaríkjunum. Þegar slík veðrabrigði eru höldum við fast um þau grundvallargildi sem við skilgreinum okkur með. Við ræðum málin og bendum á það sem aflaga fer. Við mótmælum af staðfestu og sannfæringu og við leggjum þunga í orð okkar. Gífuryrði breyta engu og bæta litlu við. Við sigrumst á áskorunum með alþjóðlegri samvinnu og rekum hagsmunagæslu þar sem skýrar forsendur frelsis, lýðræðis og mannréttinda ráða för. Á þeim sviðum gerum við meiri kröfur til Bandaríkjanna (Forseti hringir.) en annarra.