146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[14:45]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir að hefja þessa sérstök umræðu. Forsetatilskipun nýs Bandaríkjaforseta sem hann undirritaði á föstudag og tók strax gildi hefur vakið afar sterk viðbrögð og andúð víða um heim og í Bandaríkjunum sjálfum, enda fordæmalaust af hálfu forseta Bandaríkjanna að loka landamærum landsins gagnvart íbúum tiltekinna ríkja sem og gagnvart íbúum einstaks lands, í þessu tilviki Sýrlands, þar sem margar milljónir eru á flótta undan skelfilegri borgarastyrjöld. En við skulum minnast þess líka að flóttamenn eru að miklum meiri hluta konur og börn.

Núverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, óskaði nýkjörnum forseta Bandaríkjanna til hamingju með kjörið og áréttaði, með leyfi forseta, „vinasamband þjóðanna sem byggi á sömu gildum; virðingu fyrir frelsi, lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu.“ Því er ágætt að heyra í hæstv. utanríkisráðherra minnast hér á nákvæmlega sömu gildi. En þegar skoðuð eru viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra síðustu daga er ágætt að velta fyrir sér hver þau hafa verið. Því miður er hægt að segja að þau voru sein og veik, enda lagði ráðherrann áherslu á að tísta á Twitter og skrifa færslur á Facebook alla helgina. Þegar hann var inntur eftir því á sunnudagskvöld hvort þetta kallaði ekki á hörð viðbrögð íslenskra stjórnvalda sagðist hæstv. utanríkisráðherra hafa látið í sér heyra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda en hann myndi koma þessum skilaboðum og athugasemdum og mótmælum skýrt á framfæri við bandarísk stjórnvöld með réttum leiðum, sem hann og gerði í dag við einn af aðstoðarutanríkisráðherrum Bandaríkjanna sem átti hér leið um. Mér skilst eftir samtal mitt við þann ágæta mann að hæstv. ráðherra hafi komið þeim mótmælum skýrt á framfæri. Ég þakka honum fyrir það.

En hvaða raunverulegu áhrif hafa þessar ómannúðlegu ákvarðanir Bandaríkjaforseta,(Forseti hringir.) sem brjóta svo sannarlega á grundvallarmannréttindum og lýðræði og virðingu fyrir frelsi og réttarríkinu, (Forseti hringir.)á samband okkar Íslendinga við vinaþjóð okkar, Bandaríkjamenn? Ég vil gjarnan fá skýrari útskýringar á því enda mikið í húfi fyrir okkur öll.