146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[15:00]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við höfum of oft fylgst með harm í hjarta með ógeðfelldum aðgerðum misgóðra ríkja. Harmurinn er ekki minni nú. Því að þótt ríkið sé um margt ágætt eru vonbrigðin jafnvel meiri.

Hæstv. utanríkisráðherra og aðrir ráðherrar okkar hafa af festu harmað aðgerðir forsetans sem hér um ræðir. Það er gott og mikilvægt. Einhverjum finnst sem það sé ekki nóg. Skiljanlega ekki. Hvað er aum og háttvís diplómasía, að því er virðist, þegar réttlætiskenndinni er fullkomlega misboðið? Auðvitað vill reiðin fá meira afgerandi farveg. En hvað ættu íslensk stjórnvöld að gera annað en að nota diplómatíska stöðu til að koma á framfæri mótmælum af festu? Hvað annað?

Viðskipta- eða stjórnmálasambandsslit? Yrði það til góðs? Varla.

Utanríkisstefna Íslands hefur í áratugi tekið mið af því að vera í opnum samskiptum við sem flest ríki heims, líka þau ríki sem misbjóða gildum okkar. Sú stefna er skynsamleg. Það er stefna sem trúir á að með því muni ljóstíra mannréttinda, frelsis, upplýsingar, umburðarlyndis ná að lýsa leið þar sem þörf er á. Það er af þeim ástæðum sem t.d. þáverandi ríkisstjórn gerði fríverslunarsamning við Kína þrátt fyrir mýmörg mannréttindabrot þar. Þær sömu ástæður eiga einnig við nú. Það er í þeirri stöðu opinna samskipta, samtalsvægis, þar sem er líklegra að við getum haft áhrif á mannréttindavernd í öðrum ríkjum.