146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[15:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að fyrstu dagar nýs forseta Bandaríkjanna hafi vakið áhyggjur af stöðu umhverfismála hér í byrjun 21. aldar sem og mannréttindamála í heiminum. Auðvitað hljótum við á Íslandi að tala um það.

Oft er litið til okkar vegna þess árangurs sem við höfum þó náð í kvenfrelsismálum. Það er nauðsynlegt að við tölum skýrt í þeim efnum á alþjóðavettvangi. Þess vegna var ég ánægð að heyra hæstv. utanríkisráðherra lýsa því að hann hefði komið á framfæri mótmælum við bandaríska embættismenn vegna tilskipana sem brjóta á réttindum kvenna, til að mynda til eigin líkama.

En það er fleira er varðar mannréttindamálin sem ástæða er til þess að hafa áhyggjur af. Ég held að það sé mjög hættuleg pólitísk þróun að fara að draga fólk í dilka vegna uppruna fólks og trúarbragða, eins og tilskipunin gerir. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að þegar kom að því máli notaði hann orð eins og að „harma“ og hafa „þungar áhyggjur“. Ég veit ekki hvort þetta voru í raun blæbrigði tungumálsins sem þarna réðu för eða hvort hann notaði ekki jafn sterk orð þegar kom að þessum málum. Ég vil því brýna hæstv. ráðherra í þessum efnum og leggja áherslu á (Forseti hringir.) að það er ekki nóg að harma það að fólk sé dregið í dilka vegna uppruna síns heldur verður að mótmæla því líka.