146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

80. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. velfn. (Nichole Leigh Mosty) (Bf):

Virðulegi forseti. Nokkrir punktar hafa komið hérna fram og ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil leggja mesta áherslu á hvað þessi frestun þýði, af hverju við erum að ræða 1. maí en ekki sex mánuði vegna kerfisins. Það er vegna þess að talið er nauðsynlegt — í frumvarpinu stendur: „Þannig er stefnt að því að verja sjúklinga fyrir mjög háum greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu.“ Það er ákall frá þjóðinni. Ég tel það vera á okkar ábyrgð að mæta því.

Varðandi kerfið: Fyrrverandi heilbrigðisráðherra lagði áherslu á að tilvísunarkerfið tæki gildi samhliða greiðsluþátttökukerfinu. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum frá ráðuneytinu og öllum sem hafa komið fyrir nefndina er greiðsluþátttökukerfið tilbúið núna um mánaðamótin til prufukeyrslu, sem þýðir að það mun verða tilbúið 1. maí. Sem þýðir, ef ég má tala mannamál hér í pontu, að menn þurfa að spýta í lófana og gera eitthvað í málinu hvað varðar tilvísunarkerfið.

Upplýsingar sem við höfum fengið frá ráðuneytinu eru að á fundum með Sjúkratryggingum Íslands um greiðsluþátttökukerfi hefur komið fram að hægt sé að útbúa útgáfu tilvísunarkerfis sem væri að einhverju leyti skriflegar tilvísanir þar til tölvukerfið vegna tilvísana væri tilbúið. Hugsunin var að ef ekki yrði unnt að ljúka forritun fyrir tilvísunarkerfi fyrir 1. maí yrði sú leið farin, að farin yrði þessi fyrrnefnd leið þar til tölvukerfið verði tilbúið. Mér finnst að við verðum að taka tillit til sjúklinga fyrst og fremst. Það er það sem þessi frestun á gildistöku laganna snýst um. Ég mæli fyrir því að við frestum gildistöku.