146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:08]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fer vel á því að ræða um mikilvægi fríverslunarsamninga í þessum þingsal og fara sérstaklega yfir efnisatriði þeirra sem og efni þeirra tilteknu samninga sem eru í umræðunni og eru í deiglunni sem hér er vísað til. En þessi tillaga til þingsályktunar fjallar ekki um það beint. Hún fjallar um fyrirkomulag Alþingis á því að taka þessa samninga til umfjöllunar. Hins vegar er greinargerðin uppfull af ýmsum fullyrðingum um þessar tilteknu samningaviðræður. Það sem ég vil spyrja hv. þingmann og flutningsmann er: Hvað er það í störfum utanríkismálanefndar Alþingis sem kemur í veg fyrir að hún geti tekið þau atriði til skoðunar eins og aðra alþjóðasamninga, önnur atriði sem snúa að utanríkismálum okkar? Það er nefnilega ekki að finna neins staðar rökstuðning fyrir því í greinargerðinni af hverju þörf sé á tiltekinni nefnd um þetta mál. Það væri ágætt að heyra aðeins betur rökstuðninginn fyrir því af hverju eigi að koma þessu á.

Eins má spyrja, því að ekkert er í fyrirkomulaginu sem þingmenn hafa í utanríkismálanefnd sem kemur í veg fyrir að þeir geti óskað eftir því að mál verði tekin sérstaklega upp, óskað eftir því að hv. utanríkisráðherra, sem dæmi, komi fyrir nefndina og fjalli um þau mál sem þingmenn vilja fá upplýsingar um: Af hverju hefur þetta mál ekki verið til umfjöllunar í nefndinni, til að mynda að beiðni fulltrúa Vinstri grænna?