146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:10]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður hefði hlustað grannt þá hefur þetta mál einmitt verið til umfjöllunar í nefndinni eingöngu að beiðni fulltrúa Vinstri grænna því að það hefur ekki verið sett á dagskrá nefndarinnar. Nú er það svo að fastanefndir þingsins eru oft störfum hlaðnar og fást við þau mál sem eru komin inn í þingið. Þessi mál eru ekki komin inn í þingið. Þau munu ekki koma inn í þingið nema ef við gerumst aðilar að samningnum. Þess vegna verð ég að segja að ég hef átt því láni að fagna að sitja einmitt með hæstv. núverandi utanríkisráðherra í hinni sameiginlegu þingmannanefnd EFTA og EES, þar sem ekki sitja fulltrúar allra flokka, þar sem við höfum fengið raunverulegar upplýsingar um stöðu TTIP-viðræðnanna og gefist tækifæri á að fá að setja okkur inn í ýmis atriði tengd þeim samningum sem utanríkismálanefnd Alþingis hefur ekki gefist tími til að sinna í sínum störfum sem fastanefnd þingsins.

Það hefur meira að segja verið rætt um það hér margoft á liðnum árum að það þyrfti sérnefnd á vegum Alþingis bara til að fást við EES-málin af því að utanríkismálanefnd Alþingis hefur haft það miklu að sinna. Og af því að þessir samningar, eins og raun ber vitni, TTIP hefur t.d. aldrei verið rætt á vettvangi utanríkismálanefndar Alþingis, það hefur verið rætt í þessum sal hins vegar, TiSA hefur tvisvar verið rætt að beiðni fulltrúa Vinstri grænna — ég tel að mikill akkur væri í því fyrir alla flokka á Alþingi að fá sérstaka nefnd um þessi mál sem hefur ekkert annað hlutverk en að setja sig inn í þau mál eins og við höfum fengið að gera á vettvangi EES, EFTA-nefndarinnar, fremur en að bæta þessu við verksvið utanríkismálanefndar sem við vitum að mun hafa mjög mörgum verkefnum að sinna sem hún þarf að skila til þingsins. Venjulega er það svo að fastanefndir forgangsraða þeim málum sem eru komin inn til þingsins. Þetta mál er auðvitað ekki komið til þingsins en við höfum hins vegar tækifæri til þess í þingsköpunum að kjósa sérstakar nefndir til að fjalla um sérstök, flókin mál sem krefjast sérstakrar athygli af hálfu löggjafans.