146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur hv. þingmaður ekki setið lengi í utanríkismálanefnd, ef hann situr þar þá núna, og mér þykir mjög leitt ef hann lítur á þessa tillögu sem einhverja árás á hv. utanríkismálanefnd. Er þá hv. þingmaður á móti því fyrirkomulagi sem hér var tekið upp á síðasta kjörtímabili um sérstaka þróunarsamvinnunefnd fulltrúa allra flokka? Lítur hann á það sem árás á utanríkismálanefnd? Ástæðan fyrir henni var að talið var að það þyrfti sérstaka nefnd til að geta kafað dýpra ofan í málefni tengd þróunarsamvinnu af því að utanríkismálanefnd væri störfum hlaðin. Ef hv. þingmaður hefði lagt við eyrun hefði hann heyrt það líka í fyrra svari mínu að hv. utanríkismálanefnd hefur einmitt verið störfum hlaðin, ekki síst vegna EES-innleiðinga og ég sé ekki betur en að á þingmálaskrá hæstv. ríkisstjórnar sé fátt annað að finna en EES-innleiðingar. Þannig að ég vænti þess að hæstv. utanríkismálanefnd hafi eitthvað að gera við þær innleiðingar.

Það sem hér er lagt til er sérstök vinnunefnd. Það er ekki verið að bíða eftir því að málið komi inn til þingsins heldur að gefa flokkum, öllum flokkum á Alþingi, færi á að setja sig sérstaklega inn í þessi mál. Opinber umræða hefur verið talsvert minni en í nágrannalöndum okkar af því að málin hafa fengið minni athygli hér. Við höfum til að mynda ekki sett á laggirnar sérstaka nefnd um þetta eins og við höfum gert um þróunarsamvinnu. Í þessari tillögu felst ekki nokkurt vantraust á utanríkismálanefnd og má vel hugsa sér að þar sitji t.d. þeir þingmenn sem einnig sitja í utanríkismálanefnd, hafi þeir áhuga á því að setja sig inn í þessi mál. Ég held því að hv. þingmaður þurfi ekki að bregðast við til að verja stolt hv. utanríkismálanefndar. Tillagan snýst ekki um það. Tillagan er um að við nýtum þingsköpin og bætum vinnubrögðin á Alþingi sem allmargir hv. þingmenn hafa rætt talsvert um og gefum þingmönnum færi á að setja sig með dýpri hætti inn í stórmál sem eiga eftir að hafa áhrif á okkur. Ég trúi ekki öðru en að þeir sem tala hér mest fyrir bættum vinnubrögðum séu sammála slíkri tillögu.