146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:17]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að vekja athygli á máli sem snýst um pólitík, stórpólitík sem hún sannarlega er. Það er ánægjulegt að fá að ræða slík mál hér á þingi. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann um meginsjónarmið hennar og þar af leiðandi meginstefnu hennar og ásetning með þessari þingsályktunartillögu. Eru hún og hennar flokkur í meginatriðum sammála því að gera eigi fríverslunarsamninga eins og þessa en vilja bara viðhafa góð vinnubrögð og þess vegna er þessi tillaga lögð fram? Er hún er í grundvallaratriðum á móti því að slíkir samningar séu gerðir og er þetta einhvers konar tilraun til að lengja málið og drepa því á dreif? Eða er hún efins um gerð slíkra samninga og telur að þarna geti komið viðbótarupplýsingar sem hún geti þá tekið lokaafstöðu til með því að vinna málið með þessum hætti?

(Forseti (ÞórE): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að nota rétt ávarpsorð. )