146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:23]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þessa þingsályktunartillögu. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Alþingi að vera vakandi yfir þessum málefnum. Það er margt óæskilegt sem hefur verið tekið upp í gegnum alþjóðlega viðskiptasamninga undanfarinn áratug, en slíkir samningar eru yfirleitt eða oft alla vega skrifaðir í leyni af fulltrúum stjórnsýslu tilvonandi aðildarríkja ásamt fulltrúum stórra fyrirtækja sem koma til með að njóta góðs af samningnum. Það hefur fyrst og fremst verið vegna leka sem við höfum vitað um eðli þeirra áður en þeir birtast þjóðþingum til samþykktar eða synjunar.

Í samningunum leynist til að mynda oft réttur fyrirtækja til að stefna þjóðríkjum fyrir yfirþjóðlega gerðardóma fyrir að leyfa þeim ekki að gera hér um bil hvað sem er eða hvað sem þeim dettur í hug eins og kom fram í framsögu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Þannig samningar krefjast líka oft töluverðra og víðtækra lagabreytinga sem hluti af upptöku þeirra og eftir að búið er að vera til umræðu að samþykkja samninginn í heild eða hafna honum í heild þá er lýðræðið orðið frekar veikt gagnvart þeim lagabreytingum sem þarf að gera, enda er varla hægt að hætta við smábrot af samþykktum samningi, það þarf að samþykkja hann í heild eða hafna honum í heild.

Eins og kom fram í framsögunni skiptir ekki endilega alltaf máli hvort Ísland sé aðili að samningum sem eru gerðir, enda er mjög erfitt að halda því fram að t.d. væntanlegur fríverslunarsamningur Evrópusambandsins við Kanada muni ekki hafa nein áhrif á Íslandi. Það eru ákvæði í þeim samningi sem munu breyta evrópskum lögum, þá munu einhverjar af tilskipunum og reglugerðum Evrópusambandsins sem verða til út af þeim samningi koma til með að flæða inn í íslenska þingið til meðferðar sem hluti af EES-samningnum.

Það var rosalega mikill sigur á sínum tíma þegar ACTA-samningnum var hafnað á Evrópuþinginu eftir mjög langan aðdraganda sem ég átti minn þátt í þar sem þurfti að sannfæra meiri hluta Evrópuþingsins um að ACTA-samningurinn fjallaði mjög lítið um frjáls viðskipti og mun meira um yfirþjóðlegt vald fyrirtækja, stórfyrirtækja fyrst og fremst. Það var varla liðin vika frá því að þeim samningi var hafnað að annar sambærilegur samningur var kominn til umræðu. Hann fékk nýtt nafn, nýja fjögurra stafa skammstöfun, en var efnislega hinn sami og ACTA-samningurinn sem var nýbúið loksins að slátra. Skilaboðin sem komu þarna fram voru mjög skýr. Geta fólks til þess að mótmæla því að lýðræðið sé fótumtroðið með þessum hætti er minni en geta alþjóðlegra stórfyrirtækja til að endurtaka sig út í rauðan dauðann. Það kom mjög skýrt fram með því að setja enn einn samninginn í handraðann. Það verður gert aftur og aftur og aftur þangað til að þetta verður að lokum allt samþykkt, sýnist manni. Það þarf einhvers konar mótvægi gegn þessu.

Það er t.d. algjörlega óásættanlegt að ríki gangi mjög langt í leynilegum samningaviðræðum við önnur ríki til þess að búa til einhver réttindi sem ætti í rauninni að fjalla um fyrst á þjóðþingum. Það er ekki að ástæðulausu sem þessir samningar eru í auknum mæli að koma upp sem einhverjir sérsamningar milli landa frekar en fara í gegnum Alþjóðaviðskiptastofnunina, sem hefur ýmsa galla en hefur þó fyrir sitt litla leyti verið frekar andsnúin því að starfa á þennan algjörlega ógagnsæja hátt.

Frjáls alþjóðleg viðskipti eru af hinu góða. Við þurfum að auka þau. En við þurfum líka að vanda okkur. Það er því alveg ljóst að þingnefnd af því tagi sem hér er lagt til er mikilvægur þáttur í því að tryggja góða framvindu þeirra samninga sem við komum að og tryggja gott eftirlit með þeim samningum sem munu hafa áhrif á okkur þó svo við komum ekki að þeim. Alþjóðleg viðskipti eru sömuleiðis sífellt að aukast, þau eru að þéttast, þau eru að flækjast.

Við höfum í dag í þinginu EES- og EFTA-nefndina sem ég hlakka mikið til að starfa með, en betur má ef duga skal. Í ljósi þeirrar töluverðu flækju og þeirra alþjóðlegu hagsmuna sem um ræðir í þessum samningum þurfum við að passa okkur rosalega vel og fylgjast afar vel með því sem er að gerast í heiminum. Sérnefndir af þessu tagi um tiltekin stór verkefni eru almennt af hinu góða. Við á Alþingi ættum að nýta okkur sérnefndir til þess að taka fyrir mál sem eru of stór og veigamikil til þess að fastanefndir geti veitt þeim nægilega athygli og tryggt að búið sé að ganga vel úr skugga um að málin séu ekki á einhvern hátt skaðleg fyrir okkur. Því styð ég þessa tillögu heils hugar.

Grundvallaratriðið er í rauninni það að eftir því sem heimurinn þéttist, þrátt fyrir kannski tilraunir Bandaríkjaforseta til þess að skapa einhvers konar innilokunarhyggju, þurfum við að átta okkur á mikilvægi allra þessa viðskiptasamninga. Við þurfum líka að reyna að staðla og einfalda þá með einhverju móti. Ég hef oft sagt að EFTA-samningurinn sé einn sá albesti af því tagi sem ég hef lesið hreinlega vegna þess að hann er stuttur, einfaldur og skýr. Þó svo það séu endalausir viðaukar við hann þá er það í lagi vegna þess að það er töluvert skárra en t.d. tillögur að ACTA- og TiSA-samningum sem hafa komið fram sem eru endalausar langlokur með ótrúlegum jaðartilvikum og þess háttar og eru nánast skrifaðir til þess að koma í veg fyrir að þeir verði nokkurn tíma lesnir eða alla vega skildir til fulls. Ég vona því að þetta mál nái fram að ganga.