146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Þetta frumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra er nú flutt af Pírötum í þriðja sinn. Við lögðum það fram á síðasta kjörtímabili að gefnu tilefni þar sem ráðherra var ítrekað staðinn að því að gefa Alþingi ekki sannar upplýsingar um málavexti um þá málaflokka sem vörðuðu ráðherrann.

Í kjarnann felur þetta frumvarp í sér eitthvað sem allir eru sammála um að séu góðir stjórnarhættir, þ.e. að ráðherra skuli gefa Alþingi réttar upplýsingar, að þær séu ekki villandi og að ráðherra leyni ekki upplýsingum sem varða mál sem þingið hefur til meðferðar. Eins og staðan er í dag er það samt svo að þó að ráðherra leyni Alþingi upplýsingum eins og gerðist nýlega í aðdraganda kosninga eru engin viðurlög við því. Um var að ræða tvær skýrslur sem vörðuðu mjög ástæðu þess að það kom til kosninga, þ.e. Panama-skjölin, og þær upplýsingar sem komu fram í skýrslunni sem ráðherra hafði tekið saman voru til. Sú umræða hefði getað átt sér stað. Þetta voru mikilvægar upplýsingar. Þeim var leynt. En við þessu virðast ekki vera viðurlög. Ég talaði við lögfræðiskrifstofu þingsins og var sagt að það virðist vera að það sé ekki brot því að þótt segi í 50. gr. þingskapa að ráðherra skuli, með leyfi forseta, „leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þings á máli“ þá er það innan þess máls sem um ræðir, skýrslur o.s.frv. Hann getur setið á upplýsingum og leynt Alþingi upplýsingum.

Alþingi, þegar það sinnir sínu eftirlitshlutverki, þegar það sinnir því að semja lög í landinu, setur m.a. alls konar varúðarákvæði, alls konar tennur, sem þýðir að það eru viðurlög við því að brjóta þau lög. En það eru ekki viðurlög við því að ráðherra sjálfur brjóti lög um upplýsingaskyldu. Hana er að finna þó í íslenskum lögum, í 50. gr. laga um þingsköp sem eru leikreglur þingsins, reglur um hvernig þingið skal haga sér, m.a. því að það er sagt í stjórnarskrá að þingið eigi að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. En varðandi upplýsingaskylduna eru engar tennur þar, ráðherra getur virt hana að vettugi.

Það sem þetta frumvarp þýðir er að það setur tennur hvað þetta snertir, það varðar ráðherraábyrgð ef ráðherra brýtur 50. gr. Við erum sífellt að setja lög á þingi með tennur, með viðurlögum. Það eru eðlilegir og góðir stjórnarhættir að það séu viðurlög við því ef ráðherra í þingræðisríki veitir ekki Alþingi réttar og sannar, viðeigandi upplýsingar eða leynir upplýsingum þegar Alþingi hefur mál til meðferðar.

Hitt atriðið er svo að þetta er málefnalegt vegna þess að sagt er að það þurfi að sannast að þetta hafi verið gert af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi. Það er ekki nóg að segja að ráðherra hafi gefið Alþingi rangar villandi upplýsingar eða leynt upplýsingum. Þetta er ekki þannig að Alþingi sjálft ákveði bara: Svona er þetta, hann gaf villandi upplýsingar. Nei. Það eru dómstólar, Landsdómur í þessu tilfelli vegna ráðherraábyrgðarinnar, sem munu þurfa að skera úr um hvort ráðherra hafi gefið rangar, villandi upplýsingar eða leynt þeim fyrir þinginu. Eins og við öll vitum er svolítið erfitt að fá mál fyrir Landsdóm. Þetta er ekki eitthvað sem menn hlaupa til og ætla að gera. Þetta er samt sem áður ákvæði þar sem ljóst er að þetta varðar ráðherraábyrgð. Ráðherra er ábyrgur fyrir að ljúga ekki að Alþingi og leyna ekki Alþingi upplýsingum. Þannig er það ekki í dag eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Lög um ráðherraábyrgð ná ekki til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir því rangt frá, gefur því villandi upplýsingar eða leynir það upplýsingum við meðferð máls. Ráðherrar hafa því ekki nauðsynlegt aðhald og geta freistast til að gefa Alþingi rangar upplýsingar eða setja þær fram á villandi hátt eða leyna það mikilvægum upplýsingum.“

Að sjálfsögðu vill enginn landsmaður sjá þetta. Flestir þingmenn vilja það eflaust ekki, sér í lagi ekki ef þeir hafa það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. En í raun held ég að í hjarta sínu vilji enginn þingmaður hafa það svona, að ráðherra geti raunverulega leynt upplýsingum sem varða mikilvæg mál í samfélaginu fyrir Alþingi og almenningi.

Er þetta ákvæði nauðsynlegt? Ef við förum aftur í greinargerðina, með leyfi forseta, þá segir þar:

„Um þetta efni segir í grein Ásmundar Helgasonar, þáverandi aðallögfræðings Alþingis, sem birtist í 3. tölublaði Tímarits lögfræðinga árið 2009: „Hið pólitíska aðhald sem felst í þingræðisreglunni veitir […] ekki næga tryggingu fyrir því að ríkisstjórnir gæti þess að upplýsa þingið um þau atriði sem skipta máli. Hættan er sú að ríkisstjórnin telji sig einungis vera skuldbundna stjórnarmeirihlutanum sem veitir henni stuðning. Hún treystir honum, enda minni hætta á að hann „verði til vandræða“ þegar mál koma til afgreiðslu. Þetta getur leitt til þess að ráðherrar veiti þingmönnum stjórnarmeirihlutans allar nauðsynlegar upplýsingar en vanræki að leggja upplýsingar fyrir Alþingi í heild, þar með talið þingmenn stjórnarandstöðunnar. Það getur ekki talist eðlilegt í lýðræðislegu tilliti. Alþingi er ætlað að starfa sem einn vettvangur sem endurspeglar ólíkt litróf stjórnmálaviðhorfa í samfélaginu. Það er Alþingi sem fer með löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið og ályktar um önnur málefni, ekki stjórnarmeirihlutinn, og þar fer umræða fram fyrir opnum tjöldum sem gerir lýðræðislegt aðhald kjósenda mögulegt. Eigi einhver upplýsingaskylda að hvíla á ráðherra, hvort sem hún er pólitísk eða lagaleg, hlýtur hún að vera við Alþingi í heild, ekki við einstaka þingmenn eða hluta þeirra. Það stuðlar því að meiri réttindum minni hlutans ef slíkri skyldu yrði veitt lagagildi því þá er hún ekki eins háð pólitískum forsendum.““

Ég vil vekja athygli á því sem kemur þarna fram, að þessi atriði komi fram fyrir opnum tjöldum. Þetta varðar ekki bara eftirlitshlutverk þingsins, eftirlitshlutverk þingsins er m.a. að draga inn í ljósið, inn í opinbera umræðu, upplýsingar sem varða almannahag, varða almenning, heldur skiptir þetta einnig máli til þess að gera, eins og þarna segir, lýðræðislegt aðhald kjósenda mögulegt.

Það er nákvæmlega það sem við sáum í aðdraganda kosninga. Það að setið var á skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum eða skattaskjólum, en þau eru í flestum tilfellum notuð sem slík, hafði þau áhrif að sú umræða gat ekki farið fram á þingi því að þegar ráðherra leggur fram skýrslu geta þingmenn beðið um að talað sé um hana í þingsal. Það var það sem átti að gera. En það var ákveðið að sitja á henni. Ráðherra ákvað að sitja á skýrslunni. Það er ekki góð lýðræðisleg regla til þess að gera lýðræðislegt aðhald kjósenda mögulegt. Það girðir fyrir það, það stöðvar lýðræðislegt aðhald kjósenda. Það er ekki góð regla.

Mig langar að ítreka að í stjórnarsáttmálanum kemur þetta alveg skýrt fram, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun í öllum störfum sínum hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gagnsæja stjórnsýslu.“

Það sem ég lýsti eru ekki lýðræðislegir stjórnarhættir, er ekki gegnsæ stjórnsýsla. Ef menn vilja bæta það er hérna tækifærið með frumvarpi sem þingflokkur Pírata hefur lagt fram í þriðja sinn. Við erum að sjálfsögðu til umræðu um það hvort eitthvað megi betur fara og hvernig hægt væri að setja þetta betur upp en þar sem meginmarkmiðið er þó tryggt, að ráðherra verði að veita Alþingi réttar upplýsingar sem eru ekki villandi og að hann leyni ekki upplýsingum sem varða þau mál sem Alþingi er með.

Svo langar mig að lokum að benda á að ef frumvarp stjórnlagaráðs hefði verið samþykkt, ef við værum komin með það, væri þetta ekki vandamál. Í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrá fjallar 93. gr. einmitt um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd umbeðnar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum.“

Í þessu tilfelli hefði ráðherra verið skylt að veita þessar upplýsingar sem undir hann heyra. Hann hefði þurft að láta þessa skýrslu til Alþingis þegar hún var tilbúin. Áfram held ég með 93. gr. um upplýsingaskyldu ráðherra í frumvarpi stjórnlagaráðs:

„Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra með því að bera fram fyrirspurn um mál eða óska eftir skýrslu, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.“

Þarna er aðeins sterkara að orði kveðið en í lögum í dag. Það er talað um í stjórnarskránni að við getum óskað eftir o.s.frv. Menn segja að það sé yfirleitt túlkað þannig að ráðherra verði að veita upplýsingar en það er ekki skýrt hvenær hann verði að veita þær. Það er ekki alveg skýrt í lögum í dag, hann getur setið á þeim án þess að brjóta lög samkvæmt þeim lögfræðingum sem ég hef talað við. Svo er það síðasta málsgrein 93. gr. um upplýsinga- og sannleiksskyldu í frumvarpi stjórnlagaráðs:

„Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi.“

Þessi stjórnvöld eiga ekki eftir að samþykkja frumvarp stjórnlagaráðs og þar með þessa 93. gr. sem myndi tryggja góða stjórnarhætti þegar kemur að upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. En þetta þing getur samþykkt að við lögum upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra í átt að góðum stjórnarháttum út frá málefnalegum sjónarmiðum og við getum haldið því samtali áfram. Nú er frumvarp Pírata komið fram. Eftir 1. umr. gengur málið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar munum við sjá hvort ekki sé byr fyrir því að málið haldi áfram og fái málsmeðferð svo við getum farið eins langt með það og hægt er og á endanum komið okkur niður á einhverja niðurstöðu þannig að málum um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra sé betur farið og betur háttað á Alþingi en hingað til hefur verið.

Að lokum legg ég til að frumvarpið gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og 2. umr.