146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, nákvæmlega. Þetta mál er unnið af Aðalheiði Ámundadóttur fyrir okkur Pírata á síðasta kjörtímabili. Hún var þá aðstoðarmaður þingflokksins. Hún er lögfræðingur og mikið séní. Ef ég fer rétt með er hún eina manneskjan á Íslandi sem hefur fengið 10 í einkunn fyrir BA-ritgerð í lögfræði. Hún er mikill sérfræðingur. Hún vann þetta mál, setti það svona upp, og svo hef ég að sjálfsögðu rætt við aðra þingmenn. Það er náttúrlega Landsdómur sem dæmir. Þegar dómstólar dæma þá dæma þeir m.a. út frá því hvað sæmilega vitiborinn einstaklingur mundi telja. Til dæmis ef legið hefur verið á upplýsingum um t.d. skelfileg umhverfisáhrif, segjum að ráðherra hafi vitað um skelfileg umhverfisáhrif kísilverksmiðjunnar en leynt þeim, þá gætu menn kannski sagt: jú, það hefði breytt stöðunni að vita um þau. Það hefði haft verulega þýðingu fyrir mat þingsins á því máli. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það dómstólar sem skera úr um það mál.